151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það var reyndar mjög ánægjulegt í gær þegar við vorum að samþykkja nýja menntastefnu, að ein fyrsta og mikilvægasta stoðin þar byggir á því að það séu jöfn tækifæri fyrir alla. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að í þessari farsótt höfum við á framhaldsskólastiginu lagt sérstaka áherslu á starfsbrautir og að fatlaðir nemendur geti komist í skólann. Það er mjög ánægjulegt að greina frá því að skólameistarar og rektorar í skólum þar sem starfsbrautir eru hafa alltaf lagt sérstaka áherslu á fatlaða nemendur á þeim yfir 100 samráðsfundum sem ég hef átt með skólasamfélaginu.

Við höfum líka skoðað tækifæri og það hvernig við getum eflt nám sem tengist fötluðum börnum og ungu fólki vegna þess að sú umgjörð sem við búum fötluðum einstaklingum sýnir í raun og veru, myndi ég segja, hvernig samfélag við erum. Ef ekki er jafnt aðgengi allra að menntun í landinu er það ekki góður vitnisburður. Ég sem mennta- og menningarmálaráðherra hef lagt sérstaka áherslu á jöfn tækifæri allra og við höfum sett aukna fjármuni í menntakerfið og höfum sérstaklega verið að auka við í þessum málaflokki.