151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Varðandi fjármunina sem fara í þennan málaflokk þá er þetta svolítið ófyrirsjáanlegt og erfitt að gera áætlanir fram í tímann um það hve margir leita hér eftir alþjóðlegri vernd. Það hefur verið tekin ákvörðun um að fjármagna samkvæmt raunútgjöldum í stað þess að ofáætla í fjárlögum og þess vegna er erfitt að áætla það til lengri tíma. Markmiðið hefur verið að gera vel og búa þannig um hnútana að við hröðum málsmeðferðinni. Það hefur okkur tekist með forgangsmeðferðarmálunum sem taka innan við mánuð núna í afgreiðslu. Okkur hefur tekist að stytta málsmeðferðartímann undanfarna mánuði. Hér liggur fyrir frumvarp í þinginu sem gerir regluverk okkar sambærilegra öllum löndum í kringum okkur varðandi ákveðinn hóp sem leitar eftir alþjóðlegri vernd. En við þurfum auðvitað að hafa það alveg á hreinu að þeir sem leita eftir alþjóðlegri vernd og eiga rétt á henni, eru að flýja ofsóknir eða ómannúðlega meðferð, hafa ekki vernd og fá hér efnismeðferð, munu fá alþjóðlega vernd ef þeir uppfylla þau skilyrði, sama hve margir það eru. Þannig að kerfið okkar þarf að vera í stakk búið til að takast á við þann hóp og sinna honum vel og svara honum fyrr. Það gerum við t.d. með þeim lagabreytingum sem ég hef lagt fram til að setja fleiri mál í forgangsmeðferð, þau mál sem almennt leiða til neikvæðrar niðurstöðu svo að við getum hraðað allri málsmeðferð og unnið með sóma að þessum málaflokki í allar áttir.