151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að spyrja hér um rafrænar þinglýsingar. Ég held að ég hafi ekki spurt neinnar spurningar jafn oft í ráðuneytinu síðan ég kom þangað: Hver er staðan á rafrænum þinglýsingum og hvenær mun þetta gerast? Þetta mun auðvitað fela í sér gríðarlegan ábata fyrir samfélagið og þjónustuna sem við bjóðum upp á. Þarna erum við að sjá þjónustu sem getur stundum tekið nokkrar vikur í dag, vonandi oftast bara nokkra daga, styttast í nokkrar sekúndur með gríðarlegum ábata fyrir samfélagið í heild sinni sem getur numið yfir einum milljarði króna. Þetta er loksins að gerast á þessu ári. Það er byrjað að aflýsa rafrænt og aflýsingar eru 42% skjala. Nú eru bankarnir að tínast inn í það kerfi og byrja að nýta þessar rafrænu aflýsingar sem er aðfari og fyrsta skrefið í átt að fullum rafrænum þinglýsingum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta sérstaklega. Þetta mun tryggja töluverðar umbætur fyrir almenning af því að núverandi kerfi er bæði frekt og þungt og biðin er oft löng og kostnaðarsöm. En þetta mun líka auka svigrúm sýslumanna í heild sinni og gefa þeim tækifæri til að forgangsraða öðruvísi. Það hef ég sýnt fram á með nýrri skýrslu sem mun liggja fyrir þinginu fljótlega um framtíðarsýn sýslumanna sem ég hef birt.

Hv. þingmaður kemur inn á tvo aðra hluti varðandi málsmeðferð fyrir dómstólum sem er auðvitað sífelld áskorun. Covid hefur sett svolítið strik í reikninginn en hvað varðar löggæsluáætlunina er eftirfylgnin skýr. Við erum í mörgum tilfellum að ná þessu niður en ekki öllum. Það er ríkislögreglustjóri sem sér um þessa eftirfylgni og skoðar þetta reglulega og gerir þessar mælingar. Lögregluráð hefur líka komið sterkt þar inn sem við erum að lögfesta, vonandi fljótlega, með frumvarpi um breytingar á lögreglulögum þar sem samráð og samhæfing allra lögregluembætta á landinu hefur aukist verulega með þeirri ráðstöfun.