151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta yfirlit yfir fjármálaáætlunina. Það er vitanlega mjög stuttur tími sem við höfum til að ræða þessa hluti. Ég ætla að demba fram nokkrum spurningum eða vangaveltum. Í fyrsta lagi hef ég nokkrar áhyggjur af því að lækkun skuli vera í kortunum í ljósi þess að við munum þurfa að setja út alla öngla og öll net til að ná í betri og meiri viðskipti fyrir Ísland til að rífa okkur upp úr Covid-ástandinu. Ég held að utanríkisþjónustan muni þurfa að spila þar ákveðið hlutverk og því verður, held ég, eingöngu mætt með einhvers konar innanhússfærslum eða þess háttar.

Ég hef líka áhyggjur af því, herra forseti, að þær tölur sem við sjáum hér stemmi ekki alveg við þá ágætu skýrslu sem ráðherra lét vinna, sem kallast Áfram gakk! Þar eru töluverðar pælingar og væntingar settar fram, framtíðarsýn að nokkru leyti, sem mér finnst ekki endurspeglast í áætluninni. Mér finnst þess vegna að við þurfum að fá svör við því hvort það sé örugglega tryggt að sú ágæta skýrsla og þær hugmyndir sem þar eru endurspeglist í þessari fjármálaáætlun.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra hvort ekki sé full nauðsyn á að gera ráð fyrir ákveðinni aukningu í utanríkisþjónustu þegar við horfum á þá staðreynd að við erum land sem er mjög háð utanríkisviðskiptum. Íslendingar eru einnig mjög duglegir að ferðast og halda út í ævintýri. Við höfum öfluga borgaraþjónustu, sem ráðherra minntist á, sem við getum verið mjög stolt af, en ég hef á tilfinningunni að utanríkisþjónustan þurfi að vaxa. Að mínu viti þarf lítið land, lítil eyja í miðju Atlantshafi, sem byggir allt sitt á alþjóðasáttmálum, alþjóðaumhverfinu og alþjóðasamstarfi, að eiga utanríkisþjónustu sem er í öfugum hlutföllum við stærð landsins.