151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:33]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og góðar spurningar. Það er rétt að við þurfum að gæta hagsmuna okkar þegar kemur að samstarfinu við Evrópusambandið. Við erum einmitt að okkar frumkvæði með fund í sameiginlegu EES-nefndinni á morgun vegna þess að við lítum á það sem skýrt brot á EES-samningnum að setja okkur á þennan lista og undir þessa reglugerð. Hvað á að gera? Hv. þingmaður nefnir nokkur mál. Aðeins varðandi þróunarsamvinnu: Hvað er verið að gera þar og hvað erum við að leggja áherslu á? Fyrir utan það að við höfum sett forgang á Covid-hjálp, ef þannig má að orði komast, höldum við áfram því starfi sem snýr að því að hjálpa fátækustu ríkjunum og tökum virkan þátt í stofnunum Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum fengið mikið hrós fyrir — þó að það sé allt saman hlutfallslegt þá er það eitthvað sem munar um, við höfum verið að styrkja þessar stofnanir mikið. Við höfum komið með sérstaka mannréttindaáherslu í þróunarsamvinnuna og sömuleiðis höfum við, eins og þær þjóðir sem við berum okkur saman við, verið að nýta atvinnulífið, eins og ég nefndi hér áðan. Þetta er gríðarlega mikil breyting sem skiptir miklu máli. Við erum að stíga fyrstu skrefin í þessu af því að allt tekur þetta tíma en við munum halda þessu áfram.

Varðandi varnarmálin þá horfum við á breytta öryggismynd og við höfum auðvitað þurft að bregðast við því, m.a. með framkvæmdum og viðhaldi á Keflavíkurflugvelli og annars staðar á landinu. En við erum í fyrsta skipti núna að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, m.a. við NATO, þegar kemur að netógnum og fjölþáttaógnum eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel. Það er ærið verkefni og við stigum þetta stóra skref fyrir nokkrum mánuðum og munum fylgja því strax eftir.

Varðandi utanríkisviðskiptin þá breyttum við lögum um Íslandsstofu og gerðum skipulagsbreytingar í ráðuneytinu. Hv. þingmaður nefnir fjarfundina, og þeir eru orðnir regla. Einn síðasta fund sem ég var á opnaði ég með fjarfundarbúnaði og þar voru leiddir saman aðilar frá Íslandi og Eistlandi, en það eru mörg önnur lönd sem við erum í þannig samstarfi við. (Forseti hringir.) Þetta er allt saman á fleygiferð og verkefnin eru ærin. Ég get svo farið yfir þessar breyttu áherslur, að við viljum leggja sérstaka áherslu á hina fjarlægu markaði, en ég næ því ekki á nokkrum sekúndum.