151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:47]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu og góðar spurningar. Varðandi skuggann þá held ég að við verðum bara að segja eins og er að skugginn sem hefur verið er í rauninni samskipti Breta og Evrópusambandsins. Það snertir alla þá sem búa í Evrópu. Það hefði mátt vera meiri metnaður í niðurstöðunni þegar kom að samningum þeirra á milli og það hefur flækt stöðuna. Það er enginn vafi á því. Það að þetta tók allan þennan tíma gerði það að verkum — það er að vísu kannski ekki hægt að segja að við séum í tímahraki vegna þess að við erum búin að treysta okkar kjarnahagsmuni með bráðabirgðasamningi — en ef við komum að EFTA-löndunum þá hafa Norðmenn verið í tímaþröng. Við höfum ekki litið svo á að við séum í tímaþröng. En tækifærin eru alveg augljós og það er ekki bara ég sem hef vakið athygli á því. Bæði formaður og fyrrverandi varaformaður í flokki hv. þingmanns talar sömuleiðis um tækifæri sem eru augljós t.d. þegar kemur að sjávarútveginum, en auðvitað eru þetta síðan samningaviðræður. Almennt í öllum okkar fríverslunarviðræðum þá höldum við varðstöðu, eins og önnur EFTA-ríki, þegar kemur að landbúnaðinum en við viljum sækja fram í öðru, sérstaklega í sjávarútveginum, og menn þurfa að finna eitthvert jafnvægi í því. En það er enginn vafi að tækifærin eru þar. Sömuleiðis er sú sameiginlega framtíðarsýn sem við skrifuðum undir við Breta, eftir því sem ég best veit ein þjóða, um miklu meira en bara viðskipti, það eru tækifæri í því að raungera það en menn þurfa auðvitað að fylgja þeim hlutum eftir. Þannig að ég hef ekkert legið á þeirri skoðun. Þetta eru líka okkar hagsmunir. Ég sagði það frá fyrsta degi að ef það verða viðskiptahindranir í Evrópu og í þessu tilfelli milli Bretlands og Evrópusambandsins, en margt bendir til þess að þau samskipti verði alla vega ekki góð eins og þau voru áður, (Forseti hringir.) þá er það ekki gott fyrir okkur. Það er ekki gott fyrir neinn. (Forseti hringir.) En við gátum ekki gert í því. Þeir þurftu að klára það sjálfir.