151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun og nú er til svara hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Talsvert hefur reynt á alþjóðlegt samstarf í faraldrinum. Þar ber helst að nefna bóluefnasamstarf ESB og EES. Margir eru óánægðir með árangurinn af því samstarfi og telja að þar hafi ESB misst boltann. Í gær átti sér stað furðuleg uppákoma, eins og við höfum rætt hér, um það þegar kynnt voru áform ESB um að takmarka útflutning bóluefnis til landa utan ESB og er Ísland á þeim lista sem ESB birti. Stjórnvöld, bæði þar og hér, hafa fullvissað okkur um að þetta eigi ekki að koma að sök og hafi ekki áhrif á bóluefnadreifingu frá ESB til Íslands.

Þá eru kannski eðlilegar spurningar: Hvað myndi gerast ef Ísland tryggði sér aðgang að öðru bóluefni, t.d. Sputnik frá Rússlandi? Myndi ESB koma í veg fyrir flutning þess frá ESB-löndum til Íslands? Ég veit ekki hvort það myndi yfir höfuð fara í gegnum ytri landamæri ESB, en kannski myndi það koma fyrir. Telur ráðherra að ESB bregðist rétt við á tímum sem þessum með því að takmarka útflutning bóluefna? Telur ráðherra það forsvaranleg vinnubrögð af hálfu ESB að gæta þess ekki að undanskilja EES-löndin frá umræddum aðgerðum? Eða er ESB bara í allsherjarfýlu yfir eigin klúðri og hugsar með sér að það þurfi að sparka í einhvern og ákveður að sparka í Ísland? Staðreyndin er sú að ESB hefur klúðrað bóluefnamálum algerlega og virðist vera að reyna að koma því klúðri yfir á aðra með einhverjum furðulegum uppákomum.