151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Helstu fréttirnar af þessari fjármálaáætlun, þeirri síðustu á kjörtímabilinu, eru þær að það er ekkert að frétta. Þetta er komið, þau eru hætt og bíða bara eftir kosningum. Í áætluninni eru tölur uppfærðar miðað við nýja hagspá Hagstofunnar, talnatöflurnar í áætluninni eru uppfærðar eftir forskrift frá hagspá sem sýnir reyndar betri afkomu en búist var við, einkum vegna þess að Hagstofan hafði við spágerðina traustari gögn nú eftir að ársreikningar hafa verið birtir. En ríkisstjórnin endurmetur ekki stefnuna eða áætlanir fyrir málasviðin þótt sannarlega sé ástæða til, svo sem í heilbrigðismálum, menntamálum eða til að bæta kjör viðkvæmustu hópa samfélagsins sem jafnframt bera þyngstu byrðarnar í heimsfaraldri. Ekkert er að finna í fimm ára plani ríkisstjórnarinnar sem mætir vanda sveitarfélaga og landshluta sem augljóslega verða einstaklega illa úti við þessar aðstæður. Ég nefni Suðurnesin þar sem fjórði hver maður er án atvinnu og innviðir sem ríkið rekur á svæðinu vanbúnir til að glíma við þá vandasömu stöðu. Þar reynir sérstaklega á Vinnumálastofnun, sem er undirmönnuð, heilbrigðisstofnunina sem þarfnast mikils stuðnings, og menntastofnanir, sem þurfa fleiri bjargir til að veita atvinnuleitendum tækifæri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Hagspáin gerir ráð fyrir langtímaatvinnuleysi og að um 10.000 Íslendingar verði enn atvinnulausir árið 2026. Við þurfum að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að líkurnar á því að slíkt langtímaatvinnuleysi geysi verði hverfandi. Kostnaðurinn sem því fylgir yrði mikill í krónum talið en afar slæm áhrif á lífsgæði þeirra sem enga vinnu fá, félagsleg áhrif og heilsufarsleg sem gætu varað lengur. Kostnaðurinn af Covid-kreppunni verður minni næstu fimm árin ef ríkið stígur inn með miklu myndarlegri hætti en áætlun til næstu fimm ára, sem við ræðum hér, gerir ráð fyrir með fjölbreyttum vinnumarkaðsaðgerðum og fjárfestingum. Nýta ætti slakann í hagkerfinu og vinna gegn atvinnuleysinu, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, verja velferðina og mæta tekjufalli fólks sem ekki fær vinnu. Nauðsynlegt er að atvinnusköpunin beinist að þeim sem mest þurfa á henni að halda. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar hafa verið eru þannig að 85% starfanna eru ætluð körlum en atvinnuleysið er mest meðal kvenna, ungs fólks og innflytjenda. Þess vegna verður að mæta þörfum þeirra líka.

En framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er önnur, eins og lesa má úr krónutölum sem áætlaðar eru í málasviðin. Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er að afkomubatinn verði nýttur til að ná fyrr niður skuldastöðu ríkissjóðs, skuldastöðu sem þó er lág í öllum alþjóðlegum samanburði. Ríkisstjórnin vill umfram allt stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs hratt og eigi síðar en árið 2025. Það vilja þau gera með því að minnka umfang ríkisrekstrar miðað við síðustu áratugi með niðurskurði á útgjöldum. Þessi stefna kemur skýrt í ljós með aðhaldsaðgerðum í mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðisþjónustu, skólum og öldrunarstofnunum í ár og á næsta ári, og með óútfærðum aðgerðum sem nema 90 milljörðum kr. á árunum 2023–2025. Einnig með því að bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur, hækki ekki til samræmis við laun. Með því er ríkisstjórnin að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu. Það er stefnan, skráð og samþykkt, ef þau verða aftur saman í ríkisstjórn að loknum kosningum.

Stefna fyrir öll málasvið í öllum ráðuneytum var unnin á síðasta ári og kynnt fyrir hálfu ári síðan. Við þingmenn getum því farið með sömu nefndarálitin inn í umræðuna og hagsmunaaðilar dustað rykið af umsögnum frá því í haust.

Frú forseti. Í gær var samþykkt menntastefna til ársins 2030. Í stefnunni eru mörg fögur orð, orð í tíma töluð, en einnig orð sem kennarar hafa heyrt mjög oft áður. Ég nefni sem dæmi að nú skal efla starfs-, iðn- og tækninám og list- og verknám. Þegar enn og aftur á að fara í ófjármagnað átak til að efla starfsmenntun í framhaldsskólum rifjast upp fyrir mér grein sem Jón Torfi Jónasson skrifaði árið 1997 í tímarit Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, sem ber yfirskriftina „Þjóðsögur úr skólakerfinu“. Þegar Jón Torfi skrifaði greinina árið 1997, fyrir næstum aldarfjórðungi, var hlutfall þeirra sem stunda starfsnám í framhaldsskólum 28%, sem er nánast sama hlutfall og er í dag. Í Hollandi og Svíþjóð er sambærileg tala 70% og í Þýskalandi 80%. Lengi hefur verið samstaða í umræðum um úrbætur á skólastarfi um að efla þurfi starfs-, iðn- og tækninám og list- og verknám. Hver maður veit að starfsnám er dýrara en bóknám og ef blása á í lúðra eru auknir fjármunir forsenda þess að markmiðin náist. Menntamálaráðherra hefur allt kjörtímabilið boðað eitthvað sem kallað hefur verið menntasókn en engir fjármunir eru ætlaðir til átaksins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem staðfestir því miður að menntastefnan sem samþykkt var í gær er bara falleg orð á blaði og mun ekki skipta sköpum fyrir menntakerfið. Sennilega hefur þó sjaldan verið mikilvægara að efla menntakerfið en einmitt nú, bæði til að styrkja ungt fólk sem er án atvinnu, en einnig til að undirbúa okkur öll undir fjórðu iðnbyltinguna og allar þær breytingar á störfum og starfsumhverfi sem henni fylgja.

Ójöfnuður vex vegna atvinnuleysis, en einnig vegna þess að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækka ekki í takti við lægstu laun, ef áætlanir ganga eftir. Þannig er fjölmennum hópum haldið í fátæktargildru. Það verður að minnka kjaragliðnun undangenginna ára og hækka elli- og örorkulífeyri. Hæstv. fjármálaráðherra lofaði með bréfi til eldri borgara í landinu árið 2013 að afnema tekjuskerðingar og afturkalla kjaraskerðingar eldri borgara. Hér stöndum við árið 2021 og enn er mörg þúsund eldri borgurum og öryrkjum haldið í fátæktargildru. Fólk sem ekki hefur tækifæri til að afla sér atvinnutekna hefur sumt engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur og treystir algerlega á almannatryggingakerfið. Eina uppfærslan í fjármálaáætluninni fyrir kjör öryrkja og þá sem eldri eru er vegna fjölda þeirra en ekki til þess að bæta kjörin. Engin skref eru áformuð um að bæta kjör þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.

Við í Samfylkingunni tökum undir kröfur um að lífeyrir hækki um krónutöluhækkanir lífskjarasamninganna og í takti við lágmarkstekjutrygginguna. Við höfum ítrekað lagt fram frumvörp í þeim efnum sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. Frítekjumark vegna launatekna öryrkja hefur haldist óbreytt frá 1. júlí 2009 og ætti með réttu að vera tvöfalt hærra í dag, hefði það fylgt launavísitölu. Þetta eitt og sér dregur úr virkni öryrkja sem annars gætu unnið meira á góðum dögum. Þarna er líka mikill og verðmætur starfskraftur ónýttur. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu. Hjálparstofnanir hafa núna á síðustu mánuðum sagt okkur frá mikilli aukningu matarúthlutana. Flestir sem leitar til þeirra eru öryrkjar, langveikar, einstæðar mæður og atvinnulaust fólk.

Á fréttavef RÚV þann 18. desember sl. kom fram að Landspítalinn þurfi ekki að vinna á uppsöfnuðum rekstrarhalla á árunum 2001–2023 samkvæmt samkomulagi heilbrigðisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins. Leitað verður eftir sérstökum fjárheimildum í fjármálaáætlun 2022–2026 til uppgjörs á halla Landspítala. Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti þetta. Landspítalann hefði annars þurftu að skera niður um 4,3 milljarða kr. Það er ekki orð um þetta samkomulag í fjármálaáætluninni sem við ræðum hér en því var lofað að svo yrði og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í ræðum um fjárlagafrumvarp 2021 að hallinn og hvernig hann yrði réttur yrði ekki til þess að skerða þjónustu við sjúklinga. Í andsvörum við mig í gær sagði hæstv. fjármálaráðherra að þetta samkomulag þyrfti ekki að koma fram í áætluninni, samkomulagið standi eins og sagt hafi verið. Það er nauðsynlegt að ráðherra sem telur að hann hafi tekið yfir fjárveitingavald Alþingis sitji sem allra styst í stóli fjármálaráðherra. Fjárlaganefnd þarf að sjá til þess að orð standi með samþykkt í þingsal. Fjárlaganefndin verður að taka þessa áætlun og gera á henni miklar breytingar þegar við komum saman eftir páska.