151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ísland rafmagnslaust. Við tölum stanslaust um loftslagsmál og mikilvægi þess að takast á við þau og um lausnir eins og orkuskipti, að hætta að nota jarðefnaeldsneyti og annað slíkt. Við tölum líka um mikinn vöxt atvinnugreinanna, umhverfisvænna atvinnugreina eins og ferðaþjónustu, sem sumir deila að vísu um. Þar þurfa hótel og annað um allt land að fá rafmagn. Við erum að tala um gagnaver og garðyrkju og matvælaframleiðslu og annað slíkt sem þarf á rafmagni að halda, en við erum búin að vera strand í fjöldamörg ár varðandi orkuöflun. Okkur tekst ekki að afgreiða rammaáætlun. Orkudreifing — við heyrðum hér dæmi hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni áðan um stöðvun á Suðurnesjalínu 2 þannig að ekki er hægt að dreifa orkunni um landið. Tel ég mikilvægt að umhverfis- og samgöngunefnd taki það mál strax fyrir, Suðurnesjalínu 2, og óska hér með eftir að svo verði gert.

Svo er það orkuaðgengið eða orkuverðið, hvernig leikreglurnar á orkumarkaði virka til þess að bæði meðalstór og stór framleiðsla geti fengið orku. Þar er ég að tala um ylrækt og stærri gróðurhús og gagnaver, sem vilji er til að stækka hér en leikreglurnar hindra það. Ég held að við sem þjóð þurfum að ákveða hvort við ætlum að hafa orkuskipti og hafa hér hreina orku sem hægt er að dreifa um landið, sem er aðgengileg og við eigum hana til, ef við ætlum að ná áformum okkar.