151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú er stytting vinnuvikunnar að taka gildi. Þá hefur verið breytt fyrirkomulag hér á þingi til að bregðast við þeirri styttingu og ýmislegt fært til, en þingfundur á miðvikudögum var einhverra hluta vegna einnig lengdur fyrir styttingu vinnuviku. Við í þingflokki Pírata púsluðum saman ákveðinni tillögu að nýju fyrirkomulagi þingvikunnar þar sem pláss er fyrir nefndafundi frá kl. 9–11 mánudaga til fimmtudaga og þar á eftir er pláss fyrir þingflokksfundi og fundi utan dagskrár. Á föstudögum á svipuðum tíma eru fundir þingflokksformanna og forsætisnefndar. Það sem breytist aðallega við þessa tillögu er að lagt er til að þingfundir standi bara til kl. 5 á daginn, ekki lengur. Einu sinni í viku, á fimmtudögum, er heimilt framhald þingfundar til miðnættis, eins og nú er á þriðjudögum, en einungis með samkomulagi allra, ekki eins og það er núna, þ.e. bara ef forseti ákveður. Svo að lokum er tími á föstudögum fram til kl. 5, þá er heimild fyrir forseta að setja aukalega á fund án þess að samþykki eða samkomulag allra sé fyrir því, til að hreinsa upp ákveðin dagskrármál vikunnar.

Nú er það svo að skipulag þingstarfa er slæmt af því að það er ekki nægilega mikið unnið að því að semja um ræðutíma, það er svo einfalt. Þess vegna verður umræða ítrekað lengri og þvældari en hún þyrfti að vera ef forseti myndi sinna starfi sínu og semja um ræðutíma.