151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ísinn á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni og á aðeins örfáum árum hefur íshellan minnkað um flatarmál sem nemur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Ítalíu samanlagt. Grænlandsjökull bráðnar nú sem aldrei fyrr og snjókoma í dag og framvegis vegur ekki lengur upp á móti bráðnuninni, jafnvel þótt hlýnun jarðar stöðvist í dag. Hvergi á jarðarkringlunni eru umbreytingar jafn miklar og á norðurslóðum, svæðinu okkar, því að við erum jú sannarlega norðurslóðaríki, og við sem hér búum erum meðal þeirra fjögurra milljóna manna sem búa á norðurslóðum. Því er eðlilegt að við leggjum áherslu á norðurslóðamál í utanríkisstefnu okkar.

Það var mikilvægt skref hjá hæstv. utanríkisráðherra að skipa þverpólitíska þingmannanefnd um endurskoðun norðurslóðastefnu og fór vel á því að gera það núna í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu en tíu ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti núgildandi norðurslóðastefnu. Ég fékk það hlutverk að leiða þá vinnu en ásamt mér voru í nefndinni hv. þingmenn Njáll Trausti Friðbertsson, Karl Gauti Hjaltason, Guðjón S. Brjánsson, Ari Trausti Guðmundsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland. Með nefndinni starfaði Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir, deildarstjóri norðurslóðamála í utanríkisráðuneytinu. Vil ég þakka þeim öllum fyrir gott samstarf. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um og gera tillögu að endurskoðaðri stefnu í málefnum norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, svo sem vistfræðilegu, efnahagslegu, pólitísku og öryggislegu. Síðastliðinn föstudag skiluðum við af okkur tillögum sem eru 19 talsins og snúa að umhverfismálum og sjálfbærni, öryggismálum, leit og björgun, efnahagstækifærum og innviðauppbyggingu, vísindum, nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og svo mætti lengi telja. Allar miða þær að því að gæta hagsmuna Íslands og tryggja velferð íbúa á norðurslóðum.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að við fáum fljótlega inn í þingið (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu frá hæstv. utanríkisráðherra byggða á þeim tillögum. Ég vona, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) að okkur auðnist að samþykkja nýja stefnu okkar í norðurslóðamálum á þessu þingi.