151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Undanfarna tvo mánuði hefur Covid-19 faraldurinn verið í megindráttum í lágmarki á Íslandi. Örfá tilfelli eða engin hafa greinst á degi hverjum og flest verið í sóttkví við greiningu. Þetta ástand hefur varað þrátt fyrir að slakað hafi verið á samkomutakmörkunum innan lands. En á undanförnum dögum og vikum hefur greindum smitum á landamærum hins vegar farið fjölgandi og suma daga hafa allt að tíu einstaklingar greinst með virk smit. Undanfarnar þrjár vikur hafa komið upp þrjár hópsýkingar innan lands, allar á höfuðborgarsvæðinu, og eru þær af völdum breska afbrigðis kórónuveirunnar. Raðgreining hefur tengt tvö hópsmit saman þar sem uppruninn virðist kominn frá einstaklingi sem greindist á landamærum. Uppruna þriðju hópsýkingarinnar hefur ekki tekist að rekja. Síðustu daga hefur rakning í kringum þriðju hópsýkinguna sýnt að um 200–300 manns hafa verið útsettir fyrir veiruna síðastliðna viku og í byrjun vikunnar greindust 11 nemendur í 6. bekk Laugarnesskóla smitaðir. Þessir nemendur hafa útsett fjölda einstaklinga fyrir smiti á undangengnum dögum. Hinn 23. mars greindust 14 smit innan lands, 24. mars voru átta smit innan lands og 25. mars sex smit innan lands. Þrátt fyrir að stór hluti þessara smita sé skilgreindur þannig að þau hafi greinst í sóttkví liggur fyrir að flestir þeir einstaklinga voru nýkomnir í sóttkví við greiningu og voru því líklega smitandi áður en þeir fóru í sóttkví.

Þannig má telja víst að töluverð samfélagsleg útbreiðsla hafi nú orðið á breska afbrigði kórónuveirunnar sem nauðsynlegt er að bregðast hratt við. Rannsóknir erlendis hafa sýnt að breska afbrigðið er til muna meira smitandi en flest önnur afbrigði. Í raun er nú gripið til sömu aðgerða, sömu sóttvarnaaðgerða, og gripið var til við upphaf þriðju bylgjunnar síðastliðið haust, sem gáfust þá vel. Munurinn er sá í meginatriðum að starfsemi hársnyrtistofa, snyrtistofa og sambærileg einstaklingsstarfsemi verður áfram heimil. Nándarregla verður áfram 2 metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Almennar fjöldatakmarkanir miðast við tíu manns og ná til allra sem fæddir árið 2014 eða fyrr.

Ég fer ekki hér lið fyrir lið í aðgerðirnar að öðru leyti en því að miðað er við að þessar breytingar haldi gildi sínu í þrjár vikur í því skyni að ná utan um þessa útbreiðslu.

Tekin var ákvörðun um það líka að grunn- og framhaldsskólum, tónlistarskólum og háskólum yrði lokað frá og með 25. mars þar til hefðbundið páskafrí tekur við, sem í flestum tilvikum tilfellum eru einungis tveir dagar. Unnið er að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskaleyfi með hlutaðeigandi aðilum.

Varðandi aðgerðir á landamærum er það svo að frá 1. apríl næstkomandi munu börn fædd 2005 og síðar fara í eina sýnatöku við landamæri. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví við komuna til landsins þarf barnið jafnframt að sæta sóttkví. Þá verður ferðamönnum sem koma frá svæði eða sem dvalið hafa á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500, eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir, skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þessar breytingar byggja á tillögum sóttvarnalæknis sem byggja á því að smitum hefur fjölgað á landamærum.

Aðeins um stöðu bólusetninga. Í gær höfðu verið gefnir tæplega 60.000 skammtar af bóluefni og þar af hafa ríflega 20.000 einstaklingar verið fullbólusettir. Nú er hafin bólusetning á ný með bóluefni frá AstraZeneca í eldri aldurshópum og er gert ráð fyrir að í vikunni eftir páska hafi öllum 70 ára og eldri verið boðin bólusetning. Þá er verið að ljúka við að bólusetja þá starfsmenn Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem eru í nánum samskiptum við sjúklinga. Í framhaldi af því verður einstaklingum 69 ára og yngri með undirliggjandi sjúkdóma boðin bólusetning. Á sama tíma verður áfram haldið að bjóða heilbrigðisstarfsmönnum utan stofnana bólusetningu.

Loks vil ég geta þess hér í lokin, vegna þess að umræða hefur verið um það, og rétt að taka það fram, að íslensk stjórnvöld hafa gengið úr skugga um að ákvörðun Evrópusambandsins um að banna útflutning bóluefna gegn Covid-19 frá ríkjum sambandsins til landa utan þess mun ekki raska afhendingu bóluefna til Íslands. Ísland er aðili að samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum og situr við sama borð og ríki Evrópusambandsins varðandi þau bóluefni sem samningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins taka til og afhendingu þeirra. Bóluefnum er útdeilt hlutfallslega jafnt milli þeirra þjóða sem aðild eiga að samningunum miðað við íbúafjölda og Ísland er aðili að þeim samningum. Íslensk stjórnvöld telja, eins og fram hefur komið, rétt að gera athugasemdir við þessa reglugerð og hafa komið þeim athugasemdum á framfæri við Evrópusambandið og ýmis ríki innan þess.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að umræðan verði góð eins og venja er undir þessum dagskrárlið og væntanlega mun ég svara þeim spurningum sem fram koma.