151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þær hertu aðgerðir sem nú hafa verið kynntar væru ekki nauðsynlegar ef búið væri að bólusetja þjóðina eða ná meiri árangri á því sviði, árangri sem við hefðum átt að vera búin að ná. Á visir.is birtist í gær merkileg frétt undir fyrirsögninni: „Ísland gæti notið góðs af útflutningshömlum ESB“. Þessi fyrirsögn byggði á mati ráðuneytis hæstv. ráðherra sem mat stöðuna einhvern veginn á þá leið að ef ESB bannar útflutning til annarra landa en sleppir Íslandi af listanum, sem Ísland er enn á, þá gætum við kannski fengið smávegis af því bóluefni sem gert verður upptækt. Þetta er ráðuneytið sem okkur er sagt að sjái nú um að afla bóluefnis með öllum tiltækum ráðum. En hvað er ráðuneytið raunverulega að gera? Er þetta eðlileg lýsing á afstöðu þess, sanngjörn lýsing sem birtist þarna í fréttinni? Og er ráðuneyti, sem vill fyrir alla muni afsaka afglöp Evrópusambandsins, líklegast til þess að ná að afla bóluefnis utan við samninga við ESB?