151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á hin augljósu tengsl hraða bólusetninga við opnun samfélagsins, við erum öll mjög meðvituð um það. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að fréttaflutningur á visir.is hafi verið sérstaklega sanngjarn, úr því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um það. En hvað varðar önnur möguleg kaup á bóluefni er rétt að segja frá því, eins og fram hefur komið hér fyrr í ræðustóli Alþingis, að það er í skoðun í heilbrigðisráðuneytinu hvort unnt sé að fá bóluefnið Spútnik til Íslands. Viðræður við framleiðanda eru raunar á byrjunarstigi og lítið hægt að segja frekar um stöðuna á þessu stigi. Ég fullvissa hv. þingmann um að við gerum allt sem hægt er til að flýta bólusetningum og raunar koma mjög góðar fréttir frá Janssen í dag og væntanlega verður bólusetningardagatalið uppfært síðar í dag með hliðsjón af því. Janssen-bóluefnið er einstaklega jákvætt í þessu bólusetningardagatalstilliti vegna þess að af því þarf bara eina sprautu. Það munu því verða góðar fréttir sem berast af því í dag.