151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég deili því algerlega með hv. þingmanni að vera orðin nokkuð langeyg eftir því að það sé að marka þær tölur sem við fáum. Þær eru iðulega þannig að þær breytast frá degi til dags og frá viku til viku og ég hefði sannast sagna haldið að þessir framleiðendur væru áreiðanlegri en svo og ekki síður að samstarf Evrópusambandsins við önnur Evrópuríki væri stöðugra en komið hefur á daginn, ég tek algjörlega undir það.

Ég er hins vegar að greina frá því að við erum með staðfesta niðurstöðu núna frá Janssen og ég tek undir orð hv. þingmanns, hvernig má það vera að verið sé að breyta tölum frá degi til dags. Ég hef hins vegar lagt á það áherslu að upplýsa um allar þær tölur sem ég hef undir höndum. En sóttvarnalæknir hefur iðulega sagt og það er auðvitað mikilvægur lærdómur fyrir okkur öll, og vonandi líka hv. þingmann, að við getum verið viss um bóluefni þegar þau eru komin í hús. En við vorum að fá staðfestar fréttir varðandi Janssen um að 4.800 skammtar bærust í apríl, 2.400 núna 16. apríl og 26. apríl annað eins.