151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:17]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það var nú gott að fá þessar fréttir um Janssen undir lok síðara andsvars hæstv. heilbrigðisráðherra. Fréttirnar breytast greinilega dag frá degi. Eftir sem áður er kannski engin breyting á óánægju eða vonbrigðum manna með það hversu lítið er að koma af þessu Johnson & Johnson bóluefni, þótt það hafi færst úr 3.500 skömmtun frá því í gær upp í 4.800 skammta í dag. En gott og vel.

Hins vegar vil ég líta til þeirra tækifæra sem eru núna í Evrópusambandslöndunum. Evrópusambandið hefur ekki beðist afsökunar á því að hafa sett Ísland á lista yfir lönd sem ekki má flytja bóluefni til — ég held að Ísland sé enn þá þeim lista og brýnt að landið fari af þeim lista — og í ljósi þess finnst mér vert að skoða það og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé með markvissum hætti, mjög agressífum hætti, ef ég má orða það þannig, að leita til þeirra landa sem nú þegar hafa t.d. lýst því yfir að þau ætli ekki að nota þau bóluefni sem þau þegar hafa og liggja á lager. Ég tek sem dæmi Danmörku sem hefur tilkynnt að ætluninn sé að fresta notkun AstraZeneca bóluefnisins í þrjár vikur. Mér finnst ekki boðlegt að ríkið liggi á bóluefni með þessum hætti í margar vikur. Ég kalla eftir því að Ísland óski eftir því að fá þótt ekki væri nema lánað þetta bóluefni í þennan tíma og endurgreiði það síðar þegar Ísland fær sína skammta. Þetta á við um fleiri lönd. Á Ítalíu berast fréttir af því að árás hafi verið gerð á vöruskemmur þar sem lágu hátt á fjórða milljón skammtar af bóluefni og búið að liggja þar í einhvern tíma. Hvað er heilbrigðisráðherra að gera í þessum efnum?

Svo langar mig líka að spyrja hvort heilbrigðisráðuneytinu hafi boðist kaup á bóluefnum frá framleiðendum utan Evrópusambandsins, af því að nú fjölgar þeim framleiðendum mjög. Hefur Íslandi verið boðið til kaups bóluefni frá löndum eins og Rússlandi og Kína og frá fleiri framleiðendum?