151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrsluna og tel mjög mikilvægt að Alþingi sé þétt við hlið ráðherra og sé vel upplýst. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mætti t.d. í þingið beint eftir kynningarfund þegar reglum var breytt þar til að ræða strax við þingið áður en farið var í viðtöl við fjölmiðla einmitt til þess að löggjafinn væri vel upplýstur og það væri ekki upplýsingaóreiða og allir gætu gengið í takt. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrstu spurningu: Telur hún að eftirlit stjórnvalda með ferðafólki sem hingað hefur komið og á að vera í sóttkví, fólki búsettu hér sem og ferðafólki, hafi verið fullnægjandi? Hvernig hefur því verið háttað? Hefur einhver vöktun verið t.d. í Leifsstöð varðandi það hvernig fólk ferðast þaðan eða yfirleitt vöktun á því hvar fólk heldur til þegar heim er komið eða á gististaði?