151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eitt er regluverkið sem við höfum verið að tala um og beina sjónum að og herða til að þétta varnir okkar á landamærum gagnvart Covid-19, og hitt er síðan framkvæmdin, hvernig framkvæmd regluverksins lánast. Eins og hv. þingmaður nefnir þá hafa auðvitað komið upplýsingar um og verið brögð að því að ferðamenn og aðrir sem eiga leið um landamæri hafi ekki virt sóttvarnareglur og það er iðulega það sem hefur gerst þegar smit breiðast út. Framkvæmdin á landamærum að því er varðar eftirlit og eftirfylgni er ekki á borði heilbrigðisráðuneytisins heldur dómsmálaráðuneytisins. En hins vegar hefur sóttvarnalæknir ítrekað bent á að hægt sé að gera betur í því eftirliti, skerpa á þeim reglum sem hafa verið viðhafðar, og er verið að bæta það eftirlit frá degi til dags.