151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Segja má með nokkrum sanni að faraldurinn hafi gengið bærilega hér á Íslandi, þ.e. miðað við mörg önnur lönd. Engu að síður er hér um virkilega krefjandi verkefni að ræða þar sem samstaða þjóðarinnar, viðbrögð viðbragðsaðila og annarra og styrk stjórn á öllum viðbrögðum hefur skipt gríðarlega miklu máli. Það er ástæða til að þakka hæstv. ráðherra og hrósa og þeim undirstofnunum sem heyra undir ráðherrann fyrir hlut þeirra í því máli.

Núna er rúmt ár frá byrjun faraldursins og langtímaáhrif eru farin að koma í ljós. Í ljós kemur að einhvers staðar í kringum — það er misjafnt eftir tölum en gæti verið að alveg upp í 60–70% þeirra sem hafa fengið veikina eigi enn við eftirköst að stríða, jafnvel sex mánuðum eða lengur eftir að faraldrinum lýkur. Þá er vangaveltan kannski hvað við gerum næst og hvort farið sé að huga að því í ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Varðandi síðan bólusetningarnar og áhrifin af þeim langar mig að inna ráðherrann eftir því hvaða samtöl eru í ráðuneytinu um áframhaldið á bólusetningum, til að mynda þegar þjóðin er „fullbólusett“ og liðið nokkuð frá upphafi faraldursins. Er byrjað að ræða í ráðuneytinu með hvaða hætti og hvort við munum þurfa að halda áfram að bæta í? Munum við t.d. þurfa að endurbólusetja? Munum við þurfa að nota svokallaða, fyrirgefið, herra forseti, „bústera“ til að ýta undir áframhaldandi ónæmi í samfélaginu?