151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Rannsóknir standa auðvitað yfir í öllum mögulegum heimshornum um allar mögulegar hliðar á þessum málum. Ég held að vinnudeginum væri ágætlega varið í að lesa þær og fylgjast með þeim vegna þess hversu ört og þétt þær koma fram. Sjálf er ég ekki sérfræðingur á þessu sviði en er mjög stolt af því að Ísland hefur leitast við að taka alltaf ákvarðanir byggðar á bestu mögulegu þekkingu og nýjustu upplýsingum. Við erum með mjög öfluga vísindamenn hér, bæði hjá sóttvarnalækni og á Landspítala og ekki síður hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem fylgjast mjög vel með. Til að mynda er það að fara í raðgreiningu á hverjum einasta smituðum af Covid-19 eitthvað sem við sjáum hvergi annars staðar. Þekkingin sem er að safnast saman er því gríðarlega mikil.

Mig langar til að nefna í þessu samtali nýjar spurningar sem auðvitað koma upp og er rétt að snerta á og nefna, þ.e. þá staðreynd sem endurspeglast í nýjum aðgerðum stjórnvalda þegar við erum að loka grunnskólum. Það kemur til af því að við sjáum meiri útbreiðslu meðal barna. Við sjáum bæði að þau smitast frekar og smita frekar. Þá koma kannski upp nýjar spurningar hvað varðar hjarðónæmi, bólusetningar og því um líkt. Það er enginn sem núna er farinn að bólusetja börn. Farið er að rannsaka það sums staðar en við erum ekki komin þangað og við höfum ekki verið að miða okkar sýn og útreikninga o.s.frv. við slíka nálgun. En það er spurning sem við verðum að leggja fram. Við verðum að vera tilbúin að taka ákvarðanir byggðar á nýrri þekkingu, eins og við höfum gert hingað til, ef slíkt myndi koma fram.