151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:38]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í forgangsröðun í bólusetningum. Í ljósi þess að núverandi bylgju kórónuveirufaraldursins má rekja að stórum hluta til grunnskólastigsins á höfuborgarsvæðinu er þá ekki kominn tími til að forgangsraða kennurunum okkar í bólusetningar og þá sérstaklega leikskólakennurum? Mat stjórnvalda er jú að leikskólakennarar séu ómissandi starfsfólk og ættu því að teljast til framlínustarfsfólks. Stjórn Félags leikskólakennara sendi frá sér ályktun um takmarkanir á skólastarfi vegna Covid-19 í vikunni, með leyfi forseta:

„Stjórn Félags leikskólakennara lýsir áhyggjum sínum af því að halda leikskólum landsins opnum fram að páskum. Þessi veira hefur sýnt að hún er óútreiknanleg varðandi það hvar hún slær niður og verið er að taka óþarfa áhættu með því að halda leikskólum opnum þennan stutta tíma fram að páskafríi.“

Þurfa ekki gjörðir að fylgja orðum? Átta stjórnvöld sig ekki á því hversu mikilvægir leikskólakennarar eru í samfélaginu? Af hverju hefur ekki verið ráðist í það að bólusetja leikskólakennara og grunnskólakennara og af hverju hefur þeim ekki verið forgangsraðað sem framlínustarfsfólki núna?