151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Nú er það þannig að til að ég geri breytingar á reglugerð þarf að liggja fyrir tillaga frá sóttvarnalækni um aðgerðir. Sóttvarnalæknir bendir á það í minnisblaði sínu að það sé ekki aukin útbreiðsla meðal barna yngri en sex ára þannig að ég get ekki gert tillögu um takmarkanir á starfi leikskólastigsins á grundvelli þeirra tillagna sem koma frá sóttvarnalækni. Einu rökin sem við getum beitt eru sóttvarnarök. Hins vegar er ég algerlega sammála leikskólakennurum um það að leikskólinn hefur staðið í ströngu í gegnum Covid-19 og ekki bara staðið í ströngu sem í raun og veru sérstakt og afar mikilvægt skólastig heldur ekki síður staðið í ströngu sem mikilvægur hlekkur í því að samfélagið geti haldið áfram. Ég held að það sé rétt sem leikskólakennarar benda á að við mættum miklu oftar víkja orðum að því hversu mikilvæg þessi þjónusta og þetta skólastig er fyrir samfélag sem vill standa undir nafni.

Ég er sammála því að það þarf að sýna leikskólakennurum sóma og ég vil gera það vegna þess að þau eru að vinna afar merkilegt og mikilvægt starf. Sjálf hef ég farið með fjóra krakka í gegnum leikskóla og fimm barnabörn og það hefur allt saman verið afar gagnlegt að fá stuðning og aðstoð við það að ala upp börn, en ekki síður að leggja grunn að menntun þeirra og framtíð.