151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:41]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Takk fyrir þetta. Ég vona bara að það verði skoðað að forgangsraða leikskólakennurum og grunnskólakennurum í bólusetningar. En mig langaði aðeins að spyrja um aðgerðir á landamærum í samhengi við þær aðgerðir sem við þurfum nú að þola í íslenska samfélaginu. Nú erum við í fjórða skipti að sjá að verið er að loka öllu enn og aftur og þetta er farið að hafa mikil áhrif á andlega heilsu þeirra sem búa á Íslandi. Við komumst ekki í sund, við komumst lítið til að hitta fjölskyldur og við búum á einangruðu landi til að byrja með og það er verið að einangra okkur meira og meira. Þess vegna fannst mér skjóta svolítið skökku við að það voru ekki hertar aðgerðir á landamærunum. Ég er ekki hlynnt því að loka þeim alfarið en ég hefði viljað sjá einhvers konar aðgerðir sem eru í samræmi við þær aðgerðir sem við þurfum að búa við hér innan lands næstu þrjár vikurnar. Við vitum að ferðamannaiðnaðurinn er mikilvægur og það er náttúrlega mikið af störfum sem hafa horfið síðasta árið. En það hlýtur þá að vera pólitísk ákvörðun að forgangsraða gróða í ferðamannaiðnaðinum fram yfir andlega og líkamlega heilsu þeirra sem búa á Íslandi. Ég hef orðið vör við mikla þreytu í umræðunni og fólk er pirrað yfir þessu. Þannig að ég myndi kannski vilja bara fá á hreint frá hæstv. heilbrigðisráðherra: Er verið að forgangsraða ferðamannaiðnaðinum fram yfir þá sem búa á Íslandi?