151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum enn á ný að hlaupa í skjól. Íslenska þjóðin er vön því að búa við óútreiknanlegt veður. Þessi faraldur hagar sér með svipuðu móti. Nú er ekkert annað í boði en að tryggja aðstæður, fara í skjól og standa af sér veðrið þegar við erum að fara inn í fjórðu bylgjuna. Stjórnvöld brugðust hratt og hárrétt við þessum aðstæðum með hertum aðgerðum. Það má líka þakka þjóðinni hversu vel og fljótt var brugðist við tilmælum sérfræðinga. Við erum öll almannavarnir og náum árangri með samstöðu.

Lengi skal manninn reyna, sagði Megas. Þessi lína skýtur upp kollinum þegar maður fer yfir undanfarin misseri. Lífið hefur verið lyftuhús, en þjóðin hefur sýnt mikla þrautseigju og samstöðu í baráttunni við heimsfaraldurinn síðastliðin ár. Við höfum öll þurft að færa einhverjar fórnir og aðlaga okkur þeim aðstæðum sem ríkja hverju sinni. Staðan er viðkvæm og í dag má lítið út af bregða. Við megum ekki gleyma því að það glittir enn í ljósið við enda ganganna, bólusetning þjóðarinnar er komin á skrið. Áætlanir gera ráð fyrir að meginþorri þjóðarinnar verði bólusettur um mitt sumar. Velferðarnefnd hefur sinnt skyldum sínum og fylgst vel með gangi mála. Sóttvarnalæknir ásamt hinum í þríeykinu hefur mætt á fund okkar og heilbrigðisráðherra einnig. Sóttvarnalæknir kom á fund síðastliðinn þriðjudag þannig að ekki er annað hægt að segja en að við höfum verið upplýst um gang mála hér á Alþingi. En það er eðlilegt að við viljum fá svör og við viljum geta leitað eftir þeim þótt erfitt sé að gera áætlanir. Þá skiptir líka máli að vera vakandi og bregðast fljótt við. Í þessu ástandi er mikilvægt að upplýsingar séu stöðugar og réttar. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þær takmarkanir sem voru ákveðnar núna verði endurskoðaðar reglulega yfir þessar þrjár vikur eða hvort staðan verði endurskoðuð að þrem vikum liðnum.