151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar líka til að nota tækifærið til að þakka hæstv. ráðherra fyrir hvernig hún hefur staðið sig á þessari vakt því að það er komið heilt ár af þessum faraldri sem er gjörsamlega óútreiknanlegur. Hann stjórnar ferðinni, eins og við sjáum í dag, og manni finnst hann oft vera að koma aftan að manni. Í þeim bylgjum sem gengið hafa yfir höfum við verið að verja gamla fólkið og annað. En nú er staðan þannig að það eru börnin sem eru kannski í mestri hættu. Þess vegna vil ég enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir hvernig hún hefur staðið vaktina í þessu máli.

Upplýsingar eru gagnlegar og upplýsingar eru nauðsynlegar og stjórnvöld bregðast við, hvort sem er við aðstæðum eða þeim fregnum sem berast. Mér fannst því mjög sérstakt þegar hv. þingmenn Viðreisnar brustu hér út á völlinn í störfunum í dag og sögðu að þetta hefði verið eitthvert leikrit sem sett hefði verið í gang varðandi þau boð sem komu frá Evrópusambandinu. En þessar upplýsingar var að finna á heimasíðu Evrópusambandsins. Ég veit ekki af hverju þær áttu að vera búnar til hér.

Það sem við óttumst við þennan faraldur núna er að hann er svolítið ógnvænlegur gagnvart börnunum okkar. Mig langar að lokum til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður rannsóknum á áhrifum bóluefnis á börn og ungmenni, er verið að skoða það eitthvað í sambandi við breska afbrigðið? Munum við horfa á breytta forgangsröðun í bólusetningu vegna þess hvernig veiran hefur verið að breyta um takt? Og er yfir höfuð verið að bólusetja börn úti í heimi?