151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna og stuðninginn. Ég held að við þurfum að muna eftir því að halda til haga hversu almennt það er í samfélaginu að fólk hefur þurft að breyta sínu daglega lífi. Það er nánast hver einasti maður sem hefur þurft að taka á sig einhvers konar breytingar vegna faraldursins og það er mikið viðvarandi álag í einu samfélagi. En það breytir því ekki að það er mikilvægt að halda líka til haga þolgæði og úthaldi og að muna að halda upp á litlu sigrana, því að það verður maður að gera þegar á móti blæs.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvað við getum sagt um það hvernig áhrifin eru á börn. Tölurnar sem við erum með núna segja okkur að börnin eru útsettari, þau fá sjúkdóminn frekar, veikjast frekar og smita frekar. Afbrigðið er nýtt í sjálfu sér, því að þetta er náttúrlega nýr faraldur fyrir það fyrsta og svo er þetta breska afbrigði nýtt til þess að gera og verið er að fylgjast með og rannsaka það jafnharðan. Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um hvort verið væri að bólusetja börn einhvers staðar annars staðar þá er það ekki svo, a.m.k. samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í gær, en verið er að rannsaka bólusetningar á börnum á a.m.k. tveimur stöðum, ef ég veit rétt.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um reglugerð um forgangsröðun. Hún er í raun og veru undirrituð af mér. Það er sóttvarnalæknir sem framkvæmir bólusetningu og forgangsraðar samkvæmt henni, en er heimilt að hnika til forgangsröðun með sérstökum rökstuðningi til mín hverju sinni, þannig að við höfum ekki séð ástæðu til að breyta reglugerðinni.