151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrslugjöfina hér í dag. Þann 16. mars var liðið ár frá því að samkomutakmarkanir tóku gildi og örfáum dögum síðar mætum við hörðustu aðgerðum frá upphafi vegna bakslags í baráttunni. Mig langar í því sambandi til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í ákvörðun sem var tekin að mig minnir í byrjun janúarmánaðar, 15. janúar, um reglur á landamærunum, svokallað litakóðunarkerfi. Ég skil það þannig að annars vegar hafi dagurinn 1. maí orðið fyrir valinu vegna þess að þá hafi bólusetningu viðkvæmustu hópa átt að vera lokið og svo hins vegar að inntak reglunnar sé það að farþegar frá löndum sem eru metin græn eða appelsínugul og geti framvísað neikvæðu prófi fari í eina skimun á landamærum en sæti ekki sóttkví. Þannig að spurning mín í þessari fyrstu atrennu er einfaldlega: Hver er staðan á þessu í ljósi þeirrar stöðu sem nú er innan lands þegar landsmenn sæta hörðustu takmörkunum frá upphafi? Hvaða regla mun gilda á landamærunum 1. maí?