151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Einhvern tímann hefði maður nú sagt að það væri ekki til mikils ætlast að gera ráð fyrir því að ráðherra gæti svarað því hver staðan verður 1. maí þegar það er langt liðið á mars og 1. apríl er í næstu viku. En spurningin er samt mjög mikilvæg vegna þess að hún leiðir af ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í janúar og lét þau boð út ganga að litakóðunarkerfi tæki við 1. maí. Í vissum skilningi er litakóðunarkerfið alltaf partur af mati okkar, þ.e. við munum 1. apríl taka það upp að þau eigi að vera í sóttvarnahúsi í sóttkví sem koma frá eldrauðustu löndum. Það er hluti af litakóðunarkerfinu. Í uppfærðu kerfi í gær var Ísland eina græna landið enn þá og það er uppfært einu sinni í viku, ef ég man rétt, á fimmtudögum.

Ég myndi segja, af því að við vorum að gera þessar breytingar sem tóku gildi í gær innan lands og eiga að halda gildi sínu í þrjár vikur, í ljósi þess hver staða faraldursins er enn þá í Evrópu að í raun og veru myndi gildistaka litakóðunarkerfisins mjög litlu breyta ef við værum að horfa akkúrat á daginn í dag. Miðað við hver staða faraldursins er núna þá myndum við alltaf gera ráð fyrir mjög afgerandi aðgerðum gagnvart þeim sem kæmu frá rauðum svæðum, sem er nú megnið af Evrópu eins og staðan er akkúrat núna. Þannig að ég held að hér eftir sem hingað til getum við horft til þessa. En ég sem heilbrigðisráðherra minni samt á þá staðreynd að ráðstafanir sem byggja á sóttvarnalögum (Forseti hringir.) byggja alltaf á tillögum frá sóttvarnalækni sem miða við stöðu faraldursins á hverjum tíma en ekki langt fram í tímann.