151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég átta mig á því að heilbrigðisráðherra getur vitaskuld ekki frekar en nokkur annar sagt okkur hver staðan verður, en mikið væri það gott. Ég held að við séum öll orðin fullkomlega meðvituð um það á þessum tímapunkti að það er erfitt við að eiga. En ég hef áhuga á að vita hvort það sé afstaða stjórnvalda að hinn 1. maí verði reglan á landamærunumn óbreytt að því leytinu til að græn og appelsínugul ríki sæti þá ekki sóttkví samkvæmt nálguninni. Sú regla, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, stendur óhögguð. Varðandi hina regluna, og það er bara fyrir forvitnissakir vegna þessarar nálgunar Breta um að bólusetja og það er lengri tími á milli: Telst hálfbólusettur Breti ferðatækur til Íslands?