151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því hvaða tón hv. þingmaður hefur tileinkað sér í þessari umræðu sem eru svona ákveðnar upphrópanir um að hér hafi allt gengið á afturfótunum. Það er bara ekki rétt. Það er ekki rétt og hv. þingmaður veit það auðvitað. Það þjónar einhverjum öðrum tilgangi að halda því fram. Að þetta snúist um meðalmennsku, klúður o.s.frv. — ég hafna þeirri framsetningu og þeim málflutningi. Mér finnst hann óábyrgur og ekki sæmandi hér í þingsal. Enn hefur ekkert komið fram um það hvaða trygging er fyrir því að aðferðafræði hv. þingmanns hefði skilað okkur eitthvað betri stöðu. Við hér á Íslandi erum að horfa til aðgerða sem við settum í gang í október. Að mínu mati gerðum við það þá aðeins of seint af því að við vorum að vonast til að við næðum tökunum með vægari aðgerðum. Núna erum við að gera þetta með mjög hörðum og afgerandi aðgerðum sem gengu í gildi í gær og ég vonast til þess að við náum árangri hratt og vel í því að ná utan um veiruna. Við höfum notið góðs af því að vera lítið samfélag, að vera eyríki, að treysta fólki og bera virðingu fyrir fólki og viðhafa ekki einhvers konar upphrópunar- og refsinálgun í því hvernig við vinnum okkur í gegnum veiruna. Og mitt mat er að það hversu vel okkur hefur gengið að forðast að gera heimsfaraldur að pólitísku bitbeini hafi verið eitt af okkar mikilvægustu atriðum í því hversu vel hefur gengið.