151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Já, fólk braut reglur og fólk brýtur reglur og við höfum mjög lítið eftirlit með því, eins og kom fram hér fyrr í dag, því miður. Nýsjálendingar skylda alla í sóttvarnahús í 14 daga enda banna þau ferðalög sem eru ekki bráðnauðsynleg. Nú er það svo að þeir sem eru bólusettir geta smitað. Þeir geta borið veiruna. Bólusetningin ver þig gegn veikindum en þú getur komið við flöt þar sem veiran er þannig að þú getur borið veiruna áfram. Hvaða vörn er í því að vera með vottorð um bólusetningu ef þú ert svo að fljúga og millilenda á mörgum flugvöllum? Hvaða áhrif hefur millilending á þessum rauðu svæðum, gulu svæðum, grænu svæðum, ef flogið er í gegnum Danmörku eða Pólland? Hvaða áhrif hefur þetta? (Forseti hringir.) Hvaðan ertu að koma raunverulega ef þú ert búsettur í Ósló, sem er eldrautt svæði, en flýgur í gegnum Kaupmannahöfn?