151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um eftirlitið. Það er lögreglan sem annast eftirlit eins og kom fram hjá mér fyrr í dag. Hv. þingmaður fullyrðir hér að bólusettir geti smitað. Það er ástæða til að ætla, vegna þess að um það hafa fundist dæmi, að bólusettur einstaklingur sé með veiruna í nefinu. Við vitum hins vegar ekki hvort hann er smitandi eða ekki, a.m.k. veit sóttvarnalæknir það ekki. Hann hefur hins vegar lagt það til við mig að til viðbótar við bólusetningarvottorðið verði tekið eitt strok á landamærum, sem sagt eitt sýni verði tekið á landamærum af þeim sem koma með bólusetningarskírteini. Við höfum rætt þá útfærslu að það kynni að vera betri leið að koma bæði með bólusetningarvottorð og neikvætt PCR-próf vegna þess að þá væru minni líkur á því að röskun yrði á ferðaáætlunum viðkomandi sem væri í góðri trú að koma hér með bólusetningarvottorð og lenti svo í því að fá jákvætt (Forseti hringir.) út úr sinni einu skimun á landamærum. Þetta er eitt af því sem við erum með til skoðunar og ég vonast til þess að ég geti farið með reglugerðarbreytingu í gegnum ráðherranefnd á mánudaginn kemur um þetta.