151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

641. mál
[14:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta. Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1286/2014, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, verði veitt lagagildi hér á landi. Reglugerðin fjallar um lykilupplýsingaskjöl sem framleiðendum tiltekinna fjárfestingarafurða verður gert að útbúa áður en þær eru boðnar almennum fjárfestum. Þarna undir falla m.a. afurðir fjárfestingarsjóða og sérhæfðra sjóða, líftryggingar með fjárfestingaráhættu og samsettar fjármálaafurðir.

Samkvæmt reglugerðinni er þessu upplýsingaskjali ætlað að verða grundvöllur fjárfestingarákvarðana almennra fjárfesta. Markmiðið er að auðvelda þeim að bera saman upplýsingar um ólíkar vörur og skilja séreinkenni þeirra, meðfylgjandi áhættu og kostnað. Skjalið skal innihalda nákvæmar, óvilhallar og skýrar upplýsingar m.a. um það hver afurðin er, lýsingu á þeirri áhættu sem hún ber með sér á móti mögulegum ávinningi, bótum sem kunna að vera í boði og kostnaði sem tengist fjárfestingu í afurðinni, uppsagnartíma og lágmarkstíma eignarhalds og umkvörtunarleiðir fyrir almenna fjárfesta.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um það hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, viðurlagaákvæði, kæru til lögreglu, vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi og heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna og hafi til þess hefðbundnar eftirlitsheimildir. Fjármálaeftirlitinu verður jafnframt heimilað, við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að banna eða takmarka markaðssetningu, dreifingu eða sölu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða, tiltekna tegund fjármálastarfsemi eða framkvæmd hjá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi. Í undantekningartilvikum mun Eftirlitsstofnun EFTA hafa sömu heimildir. Þá getur Fjármálaeftirlitið bannað miðlun á lykilupplýsingaskjali sem ekki er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og bannað eða stöðvað tímabundið markaðssetningu á tiltekinni fjárfestingarafurð fyrir almenna fjárfesta.

Samningar um viðbótartryggingavernd, líkt og heimilt er að veita hér á landi samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, falla utan gildissviðs reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er þó kveðið á um rétt aðildarríkja til að ákveða rýmra gildissvið skyldunnar. Í ljósi þess að samningar um viðbótartryggingavernd eru um margt líkir samningum sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar og sambærileg upplýsingaskylda er ekki til staðar vegna slíkra samninga er því lagt til í frumvarpinu að gerð verði breyting á fyrrgreindum lögum þess efnis að aðilum sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd verði skylt að útbúa lykilupplýsingaskjal til samræmis við annan sparnað sem heimilt er að bjóða upp á hér á landi.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er settur samræmdur rammi um lykilupplýsingaskjöl fyrir fjárfestingarafurðir sem beint er að almennum fjárfestum og eru samsettar og vátryggingatengdar. Aukin þátttaka almennra fjárfesta á fjármálamarkaði getur stuðlað að dýpkun markaða og skilvirkari verðmyndun auk þess sem bætt aðgengi fjárfesta að upplýsingum kann að leiða af sér ákvarðanatöku um fjárfestingar sem betur endurspeglar raunverulegan áhættuvilja fjárfestis. Þá kann aukið gagnsæi að leiða af sér fjölbreyttari fjárfestingar sem að öðru óbreyttu hefur í för með sér betri áhættudreifingu í fjárfestingasafni.

Virðulegi forseti Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.