151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

fjármálafyrirtæki.

642. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með frumvarpinu eru lagðar til fáeinar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til að gera ráðherra og Seðlabanka Íslands kleift að innleiða með stjórnvaldsfyrirmælum nokkrar evrópskar reglugerðir um fjármálafyrirtæki. Veigamestu ákvæði gerðanna sem til stendur að innleiða snúa að því að takmarka vogun banka og möguleika þeirra á að fjármagna langtímaskuldbindingar með óstöðugri skammtímafjármögnun.  

Báðar breytingar styðja við fjármálastöðugleika. Lagabreytingar sem þarf til að gera ráðherra og Seðlabanka Íslands kleift að innleiða gerðirnar lúta einkum að því að þrengja skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum, létta á skyldu lítilla fjármálafyrirtækja til að skila gögnum og því hvaða liði megi telja til almenns eigin fjár fjármálafyrirtækja.

Auk þess að samræmast þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands er tímabær innleiðing gerðanna m.a. talin nauðsynleg til að upplýsingaskipti milli Fjármálaeftirlitsins og annarra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu geti áfram gengið snurðulaust fyrir sig eftir lok júní í ár, þegar hluti ákvæða gerðanna tekur gildi í Evrópusambandinu.

Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga verði undanþegin kafla laga um fjármálafyrirtæki sem fjallar um endurbótaáætlanir. Þær áætlanir fjalla um það hvernig fjármálafyrirtæki muni takast á við erfiðleika án þess að þurfa að reiða sig á opinber fjárframlög. Kaflinn byggist á evrópskri tilskipun um viðbrögð við erfiðleikum fjármálafyrirtækja.  

Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga eru undanþegin gildissviði tilskipunarinnar og íslenskum lögum um skilameðferð fjármálafyrirtækja með tilliti til þess að ekki er um hefðbundin fjármálafyrirtæki að ræða heldur lánastofnanir í eigu opinberra aðila sem gegna lögbundnu hlutverki. Ekki hefur þó enn verið mælt fyrir um sambærilega undanþágu frá kafla laga um fjármálafyrirtæki um endurbótaáætlanir. Vert er að geta þess að báðar stofnanirnar auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem fer með málefni þeirra, hafa lýst þeirri afstöðu að brýnt sé að undanþiggja þær kaflanum sem fyrst. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur tekið undir það mat að kröfur kaflans eigi illa við um stofnanirnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.