151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

viðbrögð við upplýsingaóreiðu.

222. mál
[15:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara þessu með jái eða nei-i. Við eigum auðvitað að kynna okkur hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur en fyrir fram ætla ég ekki að taka undir eða andmæla neinni tillögu sem þar kemur fram. Ég held einfaldlega að við verðum að takast á við upplýsingaóreiðu og falsfréttir með öðrum hætti en að takmarka málfrelsið. Jafnvel þó að einhver segi einhverja agalega hluti, agalega vitleysu, á opinberum vettvangi þá vil ég ekki banna viðkomandi að segja það. Ég vil hins vegar að það sé þá einhver sem svarar því með rökum, kemur hinu rétta á framfæri. Allar skerðingar á tjáningarfrelsi og allar skerðingar á mannréttindum yfir höfuð, þegar um þær er að ræða í löndunum í kringum okkur, byggja á því að verið sé að tryggja réttar upplýsingar. Stjórnvöld, hvort sem var í Sovétríkjunum, Kína eða Tyrklandi, undir núverandi forystu Erdogans, takmarka opinbera umræðu, takmarka málfrelsi á þeirri forsendu að þau séu að reyna að stoppa rangar upplýsingar, forða því að hægt sé að rugla í fólki með falsfréttum. Erdogan lokaði fyrir internetið um tíma til að stoppa rangar upplýsingar. Í kosningum í Úganda fyrir fáeinum vikum var internetinu lokað í nokkra daga fyrir kosningar af því að þáverandi stjórnvöld töldu að stjórnarandstaðan væri að nota internetið og samfélagsmiðla til að koma á framfæri röngum upplýsingum. Við erum á alveg svakalega hálum ís ef við tölum um einhverjar aðgerðir sem takmarka málfrelsi að þessu leyti. En það er ágætt að átta sig á vandamálinu. Það er ágætt að kynna sér umræðuna eins og hún á sér stað í löndunum í kringum okkur og hvernig aðrir bregðast við. En ég held að leiðin til að bregðast við röngum upplýsingum sé fyrst og fremst sú að koma réttum upplýsingum á framfæri, takast á með rökum, takast á með upplýsingum en ekki með bönnum.