151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atvinnuleysi.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, það er einmitt mikilvægt að skoða alla mælikvarða. Ég er algjörlega sammála því og benti á hver þróunin hefði verið í innlendri eftirspurn og hver hefði verið samdráttur í vergri landsframleiðslu. Atvinnuleysi dróst saman um 0,4 prósentustig í mars en það sem veldur áhyggjum og er stórt úrlausnarefni er fjöldi þeirra sem hefur verið lengi atvinnulaus, lengur en 12 mánuði. Þess vegna er aðgerðum ríkisstjórnarinnar einmitt beint að þeim hópi. Ég benti á að hér væru í boði hátt í 1.600 ný störf. 88% þeirra eru vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, þ.e. störf sem verða til í gegnum átakið Hefjum störf og munu skipta verulegu máli við það að þetta fólk komist aftur út á vinnumarkað. Það er meira en að segja það að hafa verið í langtímaatvinnuleysi. Það er ekki auðveld staða fyrir nokkurn mann og þess vegna skiptir miklu máli að brugðist sé við. Við eigum eftir að sjá breytingar á þessu. Ég get bara sagt það við hv. þingmann að atvinnulausum hefur fækkað. Við hefðum öll viljað sjá stærri skref í því. (Forseti hringir.) Ég hef þá trú að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni hins vegar skila stærri skrefum í því. Þetta er stóra úrlausnarefnið og ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður.