151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

samningar við sérgreinalækna.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg ljóst að þjónusta sérgreinalækna er afar mikilvægur þáttur íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Í nýrri heilbrigðisstefnu sem gildir til ársins 2030 gerum við ráð fyrir að þessi þjónusta sé í raun hluti af því sem við, samkvæmt stefnunni, köllum annars stigs heilbrigðisþjónustu. Ef heilsugæslan er fyrsta stigið og sérgreinasjúkrahús þriðja stigið er þar um að ræða hluta af annars stigs þjónustu sem líka er veitt af göngudeildum sjúkrahúsanna, mögulega dagdeildum en ekki síður heilbrigðisstofnunum úti um land. Þarna er því um að ræða sérþekkingu sem er mikilvægur partur af heilbrigðisþjónustunni.

Eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns runnu samningar út í lok ársins 2018. Síðan þá hafa ekki náðst samningar milli aðila en í lögum um sjúkratryggingar, sem eru í gildi, er skýrt kveðið á um þá meginreglu að til að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu þurfi að liggja fyrir samningur milli aðila um veitingu þjónustunnar. Það liggur fyrir í lögum en þó er heimilt að ráðherra leggi fram reglugerð um tímabundna endurgreiðslu til sjúkratryggðra á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Þar er skýrt tekið fram að um tímabundið úrræði sé að ræða sem skuli einungis nýta í sérstökum tilvikum.

Þetta er líka undirstrikað í greinargerð með lögunum þar sem kemur fram að þessu úrræði skuli bara beitt í einstökum afmörkuðum tilvikum. Nú hefur þessi úrræði verið beitt í á þriðja ár og ljóst er að varla verður lengur litið svo á að um tímabundnar aðstæður sé að ræða. Vegna mikilvægis þess að við náum samningi í þessu máli þurfum við að horfast í augu við þá stöðu að sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar hafa í sumum tilvikum sett gjaldskrá til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna.