151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hélt hér á sínum tíma ræðu um hina róttæku stefnu Pírata, grunnstefnuna, og ég ætla að lesa hér upp úr henni til fróðleiks. Í lið 1.1 stendur:

„Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.“

Þetta er róttæk stefna í pólitík á Íslandi í dag, virðulegi forseti. Í lið 1.2 stendur:

„Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki.“

Þetta er líka róttæk pæling í íslenskum stjórnmálum í dag. Í framhaldinu segir í lið 1.2:

„Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.“

Þetta er róttæk pæling í íslenskum stjórnmálum í dag, virðulegi forseti Það er leiðinlegt að þetta sé ekki í það minnsta nýtt umkvörtunarefni heldur þvert á móti venja. Það er þreytandi. Það er Alþingi ekki til virðingarauka og við eigum að breyta þessu. Meiri hlutinn getur það alveg. Vonandi mun sá næsti alla vega gera það, hver sem hann verður.