151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:25]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði nú bara að halda stutta ræðu og þakka heilbrigðisráðherra fyrir að leggja þetta ótrúlega mikilvæga mál fram en nú er ég svo uppveðruð eftir þessi andsvör að mér finnst eins og ég þurfi að halda hér einhverja innblásna ræðu. Það skiptir ótrúlega miklu máli að við sem löggjafi getum viðurkennt það þegar stefna sem hefur verið í framkvæmd í mörg ár virkar ekki. Við verðum að geta horfst í augu við að nálgun okkar varðandi fíknivanda hefur ekki gengið. Við þurfum að geta horft á gögnin og vísindin og þurfum að geta tekið nýja ákvörðun um að móta nýja stefnu og við þurfum að vera óhrædd við það.

Við getum ekki haldið áfram í sama fari og neitað að horfast í augu við að leiðangurinn mistókst af því að við erum hrædd við skilaboðin sem það sendir ungmennunum okkar. Ég held að við þurfum að treysta ungu fólki miklu meira en við gerum í dag. Ungmenni eru engir vitleysingar. Það er ekkert mál að afla sér upplýsinga á netinu. Það er ekkert mál að finna upplýsingar um allt mögulegt á netinu og fá réttar upplýsingar. Við þurfum að treysta unga fólkinu til þess að vera ekki algerir vitleysingar í þeim efnum. En við þurfum líka að vera til staðar til þess að grípa fólk sem lendir í erfiðleikum og virkilega aðstoða það en ekki með fordómum og jaðarsetningu eins og er til staðar í núverandi kerfi. Það er ekki þannig að refsing hjálpi fólki.

Við erum að tala um heilbrigða skynsemi. Hugsum þetta svona: Ef einstaklingur hefur upplifað áföll í æsku eða í gegnum lífið og upplifir tengslarof, vangetu til að tengjast ástvinum, samfélaginu og sjálfum sér og gengur í gegnum erfiðleika og leiðist þar af leiðandi út í vímuefnanotkun sem verður að vímuefnavanda eða fíknivanda þá er refsing bara að fara að auka á tengslarofið. Refsing er ekki að fara að laga það, hún gerir það bara verra. Ef búið er að þrýsta einhverjum út á jaðarinn í samfélaginu finnst mér heilbrigð skynsemi að viðurkenna að það mun aldrei hjálpa honum að ýta honum lengra. Eina leiðin sem er fær í því er að draga þessa einstaklinga nær okkur og hjálpa þeim að mynda tengsl. Það er leiðin til aðstoðar og þess vegna skiptir svo miklu máli að við horfum ekki til þess að refsa fólki og dýpka vanda þess heldur til þess að aðstoða það. Að setja refsingu og aðstoð saman er ekki heilbrigð skynsemi, það er ekki heil brú í því.

Aftur að frumvarpinu. Við Píratar höfum tvisvar áður lagt það fram eins og kemur fram í greinargerðinni en það náði ekki fram að ganga. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að heilbrigðisráðherra skuli hafa tekið það upp og að hún sé að leggja það fram. Ég vona innilega að samstaða sé um þetta mál hér á þingi því að þetta skiptir ótrúlega miklu máli. Það skiptir máli að við tökum þessa umræðu. Ég hef líka hitt fólk, bæði aðstandendur fíkla og fólk sem hefur átt við fíknivanda að stríða sjálft, sem er ofboðslega efins um að það sé rétt afglæpavæða neysluskammta vímuefna og er ofboðslega hrætt við skilaboðin sem við séum að senda til samfélagsins og hvaða áhrif það muni hafa. Mér finnst það eðlileg hræðsla, eðlilegir fyrirvarar, af því að það tengist þessari tilfinningu. En við sem löggjafi getum ekki byggt lög og löggjöf á tilfinningum okkar um hvað við teljum skynsamlegt eða rétt eða rangt, við verðum að gera það út frá gögnum. Við verðum að horfa á vísindin. Við verðum að horfa á hvað önnur lönd hafa gert, hver árangurinn þar er og hvað virkar.

Það sem mig langar dálítið til að skilja eftir mig í þessari umræðu, sérstaklega í vinnunni í velferðarnefnd, er að mér finnst grundvallaratriði að við pössum upp á að setja fjármagn í forvarnastarf. Það verður að gerast samhliða ef við viljum að árangurinn verði góður. Það skiptir máli og er það sem okkur hefur gengið svo ótrúlega vel sem samfélagi að gera, okkur hefur tekist að draga úr neyslu ungmenna með forvarnastarfi. Við eigum að halda því áfram og gera betur. Þetta verður ekki eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði áðan, að um leið að við erum búin að afglæpavæða vörslu neysluskammta verði allt í einu hlaðborð af vímuefnum í boði alls staðar af því að það sé orðið allt í lagi í augum fólks vegna þess að við séum búin að afglæpavæða neysluskammta. Það er ekkert mál í dag að verða sér úti um vímuefni. Það er ekkert mál. Þetta er á Facebook og Twitter og Instagram, þetta er bara símtal. Efnin eru úti um allt í samfélaginu þrátt fyrir að þau séu ólögleg og varslan refsiverð, og hafi verið lengi.

Það sem við erum að gera núna er að passa upp á að þeir sem lenda í erfiðleikum séu verndaðir og séu í öruggu umhverfi, geti leitað sér aðstoðar án þess að lenda í fordómum og meiri jaðarsetningu. Það er það sem þetta mál snýst um. Ég vona innilega að við náum að vinna þetta vel í velferðarnefnd. Við höfum þegar unnið gríðarlega mikið í þessum málaflokki þannig að við erum komin mjög langt með þetta mál í velferðarnefnd. Ég hlakka ótrúlega mikið til að vinna þetta áfram og vona að umræðan hér verði góð.