151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Þetta voru margar spurningar og stuttur tími til að svara. Ég skal bara byrja einhvers staðar. Þegar kemur að vísindunum — ég kannski fer þangað, þetta er svo áhugavert — þá er aðalbreytingin sem átt hefur sér stað á þessum tíma sú að það hefur alltaf verið talið, út frá þeim rannsóknum sem voru gerðar á sínum tíma, og það er þessi fræga rannsókn, rotturannsóknin, að við yrðum „húkt“ á þessum vímuefnum, þ.e. að þetta væru fíkniefni og þú prufaðir þau og yrðir bara háður fíkniefninu og þess vegna séu fíkniefni hrikaleg og það þurfi að halda þeim í burtu frá fólki. Það sem við vitum í dag er að það er ekki fíkniefnið. Þú getur haft mismunandi einstaklinga sem eru að nota mismunandi vímuefni og sumir verða fíklar og aðrir ekki. Það er út af aðstæðum fólks en ekki vímuefninu sjálfu. Það eru vísindin sem eru að breytast, þ.e. hvað við vitum um fíkn og hvað veldur fíkn, það hefur breyst og það hlýtur að hafa áhrif á löggjöfina okkar og hvernig við ætlum að tækla þennan vanda. Ef okkur er virkilega annt um að aðstoða við að draga úr fíknivanda þurfum við að tækla það út frá því hvað fíkn er og hvernig við aðstoðum fólk með fíknivanda en ekki út frá úreltri þekkingu. Hinar spurningarnar: Auðvitað er gríðarlega mikilvægt að við gerum hitt líka, við þurfum að auka forvarnir og auðvitað þarf að auka fræðslu og upplýsingar og við þurfum að snúa kerfinu við þannig að í staðinn fyrir að refsa fólki séum við að hjálpa því og veita aðstoð við að koma upplýsingum á framfæri um hvernig og hvar fólk geti leitað sér aðstoðar. En málið er að það er ómögulegt að aðstoða einhvern sem er ekki tilbúinn til að þiggja aðstoð. Það skiptir líka ótrúlega miklu máli, að manneskjan sé komin á stað þar sem hún er að biðja um hjálp. (Forseti hringir.) Þá skiptir máli að við séum til staðar til þess að aðstoða þegar einstaklingurinn er tilbúinn en ekki fyrr.