151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég skil ekki alveg af hverju alltaf er verið að tala um að lögleiða fíkniefni. Það er enginn að lögleiða fíkniefni eða vímuefni, við erum ekki að tala um það. Það er bara allt annar handleggur og allt önnur umræða. Ég er alveg til í þá umræðu en við erum ekkert að ræða það akkúrat núna. Við erum að ræða það að hætta að refsa fólki sem er með neysluskammta á sér. (Gripið fram í.) Nei. Það er ekki lögleiðing. Lögleiðingin er allt annar hlutur. Það er regluvæðing, ég er til í þá umræðu. Neysluskammtur er bara viðmið. Það kemur fram í frumvarpi heilbrigðisráðherra að það verður unnið í reglugerð sem er alveg eðlilegt. Í lögum um ávana- og fíkniefni er reglugerð þar sem öll ólögleg fíkniefni eru talin upp. Þar er líka hægt að hafa einhvers konar mat á því hvað teljist vera neysluskammtur eða ekki. Auðvitað eru það ekkert nákvæm vísindi. Það hefur meira með það að gera að ákvarða hvar við ætlum að leggja línurnar, varðandi það hvar við teljum þetta vera komið út í sölu frekar en til eigin neyslu. Ég treysti heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytinu fullkomlega, í samráði við neytendur, til að komast að góðri niðurstöðu hvað það varðar. Ég veit ekki hvað ég á að segja meira um þetta —(Gripið fram í: Hann er hættur að hlusta.) Hann er líka hættur að hlusta.

Ég vona bara að við komumst af stað í nefndinni. Ég vona að við komumst af stað í þessu samtali. Við hljótum að vera sammála um að refsing er ekki aðstoð en við erum ekki einu sinni sammála um það. Hvar erum við? Það er mjög furðulegur staður til að vera á þegar við erum að fara að tala um að refsing sé aðstoð. Það er eins og ríkið og yfirvaldið sé einhvers konar vinsamlegt foreldri sem er til staðar til að refsa okkur aðeins en bara út af ást. (Gripið fram í.) Það er ekki raunin. Yfirvaldið er ekki foreldri okkar, guði sé lof.