151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna. Ég gæti alveg tekið undir það, ef málið væri svona einfalt þá myndi ég kvitta fyrir það. En í mínum huga er það ekki svona einfalt. Það hefur mikið þróast í fíkniefnum, þau eru orðin það mörg og misjafnlega hörð og, eins og kom fram í andsvari sem ég átti áðan við hv. þm. Halldóru Mogensen, getur sami skammtur og dugar einum drepið annan. Það eitt og sér er nóg til að ég get ekki verið með á þessu máli. Ég get heldur ekki verið með á þessu máli þegar það liggur ekki fyrir hvað neysluskammtur er. Að segja að það verði ákvarðað með reglugerð, sem á þá væntanlega að koma fram á sjónarsviðið eftir að þetta frumvarp verður samþykkt, brúar ekki bilið þannig að ég hafi ekki áhyggjur af þessu.

Ég hef verið að hlusta á ræður og margt hefur komið fram. Það er talað um, líkt og kemur fram í greinargerð í frumvarpinu, önnur lönd sem hafa stigið svona skref en þegar betur er að gáð þá hefur ekkert land, alla vega ekki sem ég hef komið auga á, stigið jafn stórt skref eitt og sér. Í Noregi er þetta heildstæðara og tekið á fleiri efnum en bara fíkniefnum. Þar er viðkomandi sem tekinn er með skammt boðið í meðferð og þar fram eftir götunum en ekki þannig að hægt sé að tala um afglæpavæðingu. Ég hefði viljað sjá heildstæða stefnu. Ég hefði viljað sjá aðgengi að fíknimeðferðum lagað. Við erum með mörg hundruð manns á biðlistum inn í meðferðir. Ef tekið hefði verið á því hefði ég kvittað strax undir það. Það er eitt af forgangsmálunum, finnst mér, í sambandi við fíkniefnavandann.

Í sambandi við sakaskrána er ég alveg sammála því að það er mjög vont fyrir ungt fólk sem ánetjast fíkniefnum, eða bara fyrir fólk sem neytir fíkniefna, að það skuli festast á sakaskrá. Það er eitthvað sem við þurfum að taka á. Þá finnst mér betra að fara einhverja leið þar sem fólki væri gefið tækifæri á að rétta sinn kúrs en ekki að afglæpavæða efnið sem slíkt. Enda kemur fram, í umsögn á einum stað, sú spurning hvort hægt sé að afglæpavæða vörslu efnis sem er flutt inn ólöglega. Ég hef ekki fengið svar við þeirri spurningu, hvort það sé hægt. Það er líka spurning hvernig það snýr að stjórnarskránni.

Það var minnst á önnur lönd hérna, t.d. Portúgal. Það kemur fram í umsögn frá einum aðila að með því að lesa hver portúgalska leiðin er og lesa sjálf lögin í Portúgal þá sjáist að þetta frumvarp er ekkert í líkingu við portúgölsku leiðina. Ef ég vitna í þessa umsögn, með leyfi forseta:

„Í lögum Portúgals kemur skýrt fram að öll neysla og varsla vímuefna sé bönnuð. Lagabreytingin í Portúgal var ekki frá glæp yfir í löglegt, heldur úr glæp í minni glæp og refsingar miða að því að koma viðkomandi í meðferð.“ — Ef hann vill þá fara í meðferð.

Það sem breyttist er að ef sá sem er tekinn, og þarna kemur fram það sem kom fram í ræðu ráðherrans áðan, er með tíu dagskammta eða minna eru eiturlyfin gerð upptæk og hann eða hún send fyrir sérstaka nefnd sem situr í hverju sveitarfélagi í landinu og reynir að fá einstaklinginn í meðferð. Þetta er þriggja manna nefnd sem í sitja félagsráðgjafi, geðlæknir og lögfræðingur. Nefndin getur sektað fólk eða refsað á margvíslega vegu, t.d. beitt sektum allt að 150 evrum sem er um 30% af lágmarkslaunum í Portúgal; svipt fólk atvinnuréttindum, t.d. lækna og leigubílstjóra; bannað fólki að fara á ákveðna staði eða hitta ákveðna einstaklinga; bannað utanlandsferðir; svipt einstaklinga byssuleyfi; beitt upptöku eigna; stöðvað greiðslur frá opinberum stofnunum; skyldað einstaklinga til að hitta nefndina reglubundið. Ef einstaklingur í Portúgal er háður eiturlyfjum þá má senda hann á meðferðarstofnun eða skylda hann til að veita samfélagsþjónustu og telur nefndin það betur þjóna markmiði sínu að halda lögbrjótum á beinu brautinni. Svo er haldið áfram að telja upp hvernig þetta er gert hjá þeim í Portúgal og þá sést glöggt að það frumvarp sem nú er til umræðu er allt annars eðlis en í Portúgal. Það er risastórt stökk að minnka refsingar fyrir neysluskammta og að lögleiða þá.

Eins og ég sagði fyrst í ræðu minni hefði ég viljað sjá að við tækjum heildstætt á þessum vanda en tækjum þetta ekki í svona bútasaum eins og þetta mál er. Þá hefði verið meira kjöt á beinunum í mínum huga vegna þess að þetta er ekki eins einfalt og frumvarpið fjallar um, alls ekki í mínum huga.

Hæstv. forseti. Ég var að prenta út ræðu frá því fyrir nokkrum árum, hvort það var ekki bara í fyrra eða hittiðfyrra, og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Þróun er í heimi hugbreytandi efna sem geta valdið aukinni fíkn. Þróunin er gríðarleg og hefur fíkniþáttur efnanna í mörgum tilfellum verið aukinn í framleiðslu til að flækja fleiri einstaklinga í net fíknarinnar“ — það er fíkniþátturinn í t.d. kannabisefnum. — „Það kemur meðal annars fram í aukningu geðhvarfasýki hjá þeim sem nota kannabisefni og reyndar fleiri efni.“

Mikil umræða hefur verið um neysluskammta fíkniefna og þar hefur sá sem hér stendur tekið til máls í ræðum og riti í nokkuð mörg ár:

„Einstaklingur sem hefur í fórum sínum fíkniefni til eigin neyslu og er tekinn af lögreglu getur lent á sakaskrá …“ — eins og við höfum áhyggjur af og það er enginn ósammála um það. — „Þannig getur myndast gjá á milli þeirra sem eiga í vandræðum með líf sitt vegna neyslu og óttans við yfirvaldið.“

„En hvað er neysluskammtur?“ — spurði sá sem hér stendur fyrir þetta löngu síðan. — „Þeir sem neyta fíkniefna þróa með sér þol fyrir „skammtastærðum“. Neysluskammtur af einhverju efni sem „hentar“ einum getur drepið annan. Varla getur það verið boðlegt ef gera á neysluskammta fíkniefna „löglega“ eða refsilausa ef þetta er staðreynd. Það að börn undir lögaldri séu í þessum hópi gerir málið enn flóknara og því þarf að vanda til verka til að fást við þennan vanda enn frekar.

Meðferðarúrræði hérlendis eru á heimsmælikvarða, en baráttan til að ná árangri hefur kostað blóð, svita og tár og samstarfið við ríkið ekki gengið sem skyldi. Það sést best á biðlistunum, sem hafa verið um 600 hundruð manns um árabil.“ — Þarna er ég að tala um meðferðarstöðina SÁÁ.

„Reynsla annarra landa sem tekið hafa skref í afglæpavæðingu efna leiðir í ljós að taka verður á vandanum heilt yfir. Það er að segja: meðferðarúrræði þurfa að standa opin þeim sem þangað leita, oft þarf sjúklingur fleiri en eina meðferð til að ná bata. Eftirfylgni sjúklinga eftir meðferð þarf að vera í lagi. Húsnæðismál sjúklinga eru oft í ólestri og þar þarf að bæta úr á faglegan hátt eftir meðferð“ — þetta er stórt vandamál sem erfitt er að taka á en verið að gera það í skrefum. — „Félags- og sálfræðiþjónusta auk forvarnastarfsemi eru þættir sem sífellt eru í framþróun. Fjölmargar leiðir geta verið til úrlausna og eru bæði kostir og gallar við þær flestar. Vandlega þarf að meta aðstæður og velja hvaða leið eða stefna hentar best íslenskum aðstæðum.“

Það var minnst á Covid-faraldurinn í ræðu og andsvörum áðan og þennan faraldur sem er fíknifaraldurinn, vímuefnafaraldurinn. Ég hef einmitt sagt það líka að eftir að Covid skall á þá sjáum við, þegar allur heimurinn er undir, hvað samvinna er sterk, er mikið afl á milli landa heilt yfir þegar váin er svona stór eins og Covid-faraldurinn og að lönd sem stilla sig saman, eins og nú hefur gerst, geta náð ótrúlega góðum árangri. Þess vegna hef ég líkt því við það ef lönd gætu staðið saman, t.d. lönd í kringum okkur, Evrópulöndin, Norðurlöndin, og stillt saman strengi í því að mæta því vandamáli sem við erum að ræða hér í dag, en ekki að hvert og eitt taki upp sína leið sem felur það ekki í sér að ná árangri.

Ég held að við þurfum að fara mun hægar í þessi mál og taka miklu fleiri þætti undir, eins og kom fram áðan, hafa meðferðir aðgengilegar, auka forvarnir og fræðslu. Forvarnir eru tæki sem þarf alltaf að halda á lofti. Það hefur sýnt sig, við höfum séð það í gegnum árin t.d. með reykingar, að það þarf alltaf að endurtaka möntruna. Það eru náttúrlega alltaf ný og ný börn sem koma í heiminn, sem betur fer, og þá þarf að viðhalda þessum forvörnum. Ég tek hjartanlega undir það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Halldóru Mogensen, að börn eru engir bjánar. En það kemur því ekkert við að ánetjast vímuefnum. Ég ánetjaðist áfengi fyrir nokkrum tugum ára og ég tel mig ekki vera neinn bjána. Fíknin fer ekki í manngreinarálit. En ef það væri farið í þennan pakka af myndarskap en ekki í svona bútasaum eins og þetta er, myndi ég gleðjast mikið yfir því.