151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Átakinu Hefjum störf var ýtt úr vör fyrir um þremur vikum. Í morgun kom fram í fjölmiðlum að um 1.800 ný störf hefðu verið skráð hjá Vinnumálastofnun frá upphafi átaksins. Þetta eru að sönnu góðar fréttir og greinilegt að fyrirtæki og að einhverju leyti stofnanir og félagasamtök eru að taka við sér til að taka þátt í þessu verkefni. Aðferðin sem er notuð við sköpun starfa er líka mikilvæg því hún tekur sérstaklega á vanda þeirra sem hafa verið án vinnu í a.m.k. 12 mánuði. Heildarumfangið, eins og þingmenn þekkja, getur orðið allt að 7.000 störf í þessu samstarfi ríkisins, sveitarfélaga, stofnana, frjálsra félagasamtaka og fyrirtækja og viðspyrnan sem næst verður vonandi í samhengi við opnun samfélagsins í kjölfar bólusetninga sem góðu heilli ganga ágætlega vel. Eins og menn sáu í fjölmiðlum í morgun er Ísland í öðru sæti á Norðurlöndunum og á bilinu 10.–15. sæti í heiminum eftir því hvar er mælt. Vonandi mun þetta atvinnuátak skila okkur því, saman með atvinnuátaki fyrir námsmenn, að við komum okkur hraðar í gang í hagkerfinu. Nú hallar vetri og sumarið er á leiðinni og ég vil hvetja sérstaklega fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök til að taka þátt í þessu átaki því þarna eru tækifæri og við eigum að hjálpast að við að grípa þau.