151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég vil spyrja út í breytingar er varða réttindi aðstandenda látinna einstaklinga. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja um aðgang að upplýsingum, hvort aðgangur aðstandenda þeirra sem talið er upp að geti valið sér fyrirsvarsmann samkvæmt þessum breytingum sé bundinn við þennan eina fyrirsvarsmann. Segjum að það sé ekki gott á milli niðja og maka hins látna, er það þá þannig að ef einn þeirra er fyrirsvarsmaður þá geta hinir ekki fengið aðgang að upplýsingum eða hvernig yrði skorið úr um það? Ef uppi eru deilur um hver eigi að taka það að sér, hvernig á að skera úr um það hver er réttur fyrirsvarsmaður? Í fjölskyldum látinna einstaklinga eru ekki alltaf allir á eitt sáttir og því velti ég fyrir mér hvort lögin sjái fyrir sér einhverja leið til að skera úr um það, sérstaklega þar sem tilgreint er að aðeins megi einn einstaklingur vera fyrirsvarsmaður. Byrjum á því.