151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er vissulega ívilnandi ákvæði en samt sem áður ákvæði sem ég tel að okkur beri skylda til að uppfylla ef við horfum á jákvæðar skyldur okkar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Þessar skyldur eru sérstaklega sterkar þegar kemur að því að upplýsa fjölskyldur einstaklinga sem látast af völdum ofbeldis sem lögregla beitir, þ.e. einstaklinga sem látast í haldi lögreglu eða vegna einhvers konar áreksturs við lögreglu, eins og í Hraunbæjarmálinu svokallaða um árið. Það er mjög skýrt af dómasögu Mannréttindadómstóls Evrópu að fjölskylda og aðstandendur hins látna verða að hafa ríkan aðgang að upplýsingum. Ég fæ ekki séð að sú dómasaga geri einhvern veginn upp á milli nánustu aðstandenda eða geri þeim að velja einhvern einn til að fá þær upplýsingar. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort fyrirsvarsmaður — ókei, það er kannski eitthvað eitt sem varðar það að geta komið að upplýsingum og vera ákveðinn talsmaður þessa hóps en svo er hitt að nálgast upplýsingar um hvar rannsókn lögreglu er stödd og ýta eftir málum o.s.frv., hvort ekki væri tilefni til þess að útvíkka það.

Ég vil snúa mér aðeins að aðstandendum þeirra sem láta lífið í haldi lögreglu eða vegna átaka við lögreglu vegna þess sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu á bls. 9. Þar segir, með leyfi forseta: „… að fyrirsvarsmaður látins einstaklings geti, að eigin ósk, fengið tilnefndan réttargæslumann ef hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð …“

Nú velti ég fyrir mér, þegar lögregla er völd að láti manns, er það þá líka undir mati lögreglu komið hvort viðkomandi fyrirsvarsmaður hafi þörf á réttargæslumanni eður ei?