151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru brot af ýmsu í þessu frumvarpi. Ég ætla að víkja orðum að einu atriðinu sem eru þær breytingar sem snúa að réttarstöðu brotaþola. Það er löngu tímabært að styrkja stöðu brotaþola við meðferð sakamála og öll skref í þá átt eru af hinu góða. Mig langar einfaldlega að spyrja: Af hverju er ekki gengið alla leið í þessu frumvarpi? Í samráðskafla greinargerðarinnar er bent á að borist hafi umsagnir, m.a. frá Hildi Fjólu Antonsdóttur sem, ef ég man rétt, er með doktorsgráðu í aðild brotaþola að sakamálum, og sameiginleg umsögn Aflsins, Kvenfélagasambands Íslands, Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar, Kvenréttindafélags Íslands, Rótarinnar, Stígamóta og UN Women á Íslandi, sem sagt hér um bil allra frjálsra félagasamtaka á Íslandi sem láta sig varða kvenréttindi. Þessar umsagnir eiga það sammerkt að vilja ganga lengra í að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála og telja að rétt sé að veita brotaþolum formlega aðilastöðu í sakamáli. Það er afgreitt í samráðskafla greinargerðarinnar með orðunum: „Ekki var talið rétt að gera breytingar á frumvarpinu í tilefni af þessum umsögnum.“

Mig langar að spyrja, herra forseti: Af hverju ekki? Við þurfum efnislegt svar. Það er augljóst af lestri frumvarpsins að ekki var tekið tillit til þessara umsagna. Ekki voru gerðar breytingar í tilefni af þeim. En af hverju ekki, þegar öll rök hníga að því að veita brotaþolum aðild að eigin málum?