151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Með frumvarpinu eru brotaþola veitt ýmis konar réttindi sem ekki eru til staðar nú. Það sem út af stendur, sem hv. þingmaður kemur inn á, sem brotaþoli myndi njóta sem aðili málsins, eru ákvarðanir á borð við það hvort ákæra sé yfirleitt gefin út, hvað sé ákært fyrir og hvaða refsingar sé krafist, sem og ákvörðun um áfrýjun. Ef þessi leið væri farin væri um mun stærri breytingu að ræða, grundvallarbreytingu í íslensku sakamálaréttarfari, sem myndi þarfnast ítarlegrar skoðunar. Hér erum við þó að tryggja öll önnur réttindi eða stöðu brotaþola án þess að gera hann að aðila máls. Huga þarf að mörgum atriðum ef gera á slíka breytingu á íslensku sakamálaréttarfari. Meðal annars þarf þá að skoða hvernig á að fara með mál þar sem ákæruvaldið telur ekki rétt að áfrýja en brotaþoli vill gera það. Er ætlunin að brotaþoli fari þá með ákæruvaldið að einhverju leyti, hugsanlega með tilheyrandi öflun sönnunargagna og útgáfu ákæruskjals? Það hefur verið reynt að ganga langt í að bæta réttindi brotaþola með frumvarpinu án þess að hrófla við þessum grundvallaratriðum. Ég held að okkur takist vel til í takti við umsögn Hildar Fjólu Antonsdóttur þar sem hún rakti ýmis atriði til þess að bæta stöðu brotaþola. Það er gengið mjög langt í því, sem ég tel mjög mikilvægt, að bæta aðgang að upplýsingum og að geta fylgst betur með málinu, sem mest hefur verið kallað eftir. En þessar spurningar sitja eftir og myndu þarfnast mun meiri vinnu. Ég taldi rétt að koma þessum breytingum á framfæri enda afar jákvæðar og að þær gætu þá klárast á þessu þingi. En það kom ekki fram sérstaklega í umsögn Hildar Fjólu að ganga ætti alla leið í að gera brotaþola aðila að málum.