151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur að sjálfsögðu talið að það hefði átt að ganga lengra og klára málið. Hér er samt farið eftir tillögum í umsögn Hildar Fjólu Antonsdóttur um upplýsingagjöf og stöðu brotaþola í máli. Ég held að þessar breytingar séu meðal þeirra stóru breytinga sem hefur verið kallað eftir og verða vonandi mjög til bóta og vonandi að hægt verði að ganga frá þeim á þessu þingi. Ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd nái að fjalla um þetta mál og ekki bara verði réttarstaða brotaþola bætt, er varðar t.d. kynferðisbrotamál, heldur einnig réttarstaða fatlaðs fólks sem og aðstandenda látinna einstaklinga. Ég held að með þessu frumvarpi séum við að stíga mjög mikilvægt skref í bættri meðferð þessara mála fyrir dómstólum, auka traust á þeim með betri upplýsingum og betra aðgengi að málum.