151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hættulegt að taka þannig til orða að eitthvað sé endanlegt, ekkert er endanlegt og allt sætir aðhaldi og breytist og menn þurfa að skoða hlutina. Ég var meira að tala um þær reglur sem við nú erum búin að fara í gegnum sem snúa að endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Ég tel að við séum búin að styrkja regluverkið mjög vel þar og er sáttur við hvernig við skiljum við það. Svo kemur auðvitað að ýmsu öðru sem vissulega má alveg skoða, samanber t.d. starfskostnað og skattalega meðferð hans og hvort hann á eingöngu að vera greiddur samkvæmt útlögðum reikningum eða vera föst fjárhæð og þá hvernig skattalegri meðferð á því er háttað. Ég get alveg tekið undir það, viss slík ákvæði laganna um þingfararkaup og þingfararkostnað er alveg tímabært að fara yfir og menn gera það þá bara í næstu umferð.

En ég leyfi mér líka að minna á, herra forseti, að þessar greiðslur, starfskostnaðurinn og fastur ferðakostnaður í kjördæmi, eru mjög lágar í dag, borið saman við það sem áður var, vegna þess að viðbrögð Alþingis við tilteknum úrskurði Kjaradóms voru þau að skerða í raun kjör þingmanna, eða lækka mjög þessar greiðslur á móti þeirri miklu hækkun sem þá varð á þingfararkaupinu. Þannig að þetta eru ekki háar fjárhæðir sem við erum að tala um í þessum tilvikum, starfskostnaðurinn, föst greiðsla á mánuði, og fastur ferðakostnaður. En það breytir ekki því að prinsippið er til staðar. Hvernig á t.d. að byggja þær greiðslur upp og hvernig á að haga skattalegri meðferð á þeim? Og ég tek svo sem að mörgu leyti undir það að eðlilegasta fyrirkomulagið er kannski, hvað starfskostnað varðar, að menn geti fengið endurgreiddan sannanlegan útlagðan kostnað sem hefur fylgt störfum þeirra og ekki er hægt að segja að borinn sé með eðlilegum hætti af öðrum greiðslum sem þeir fá.