151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að starfskostnaður er engan veginn jafn há upphæð og hann hefur oft verið, eins og t.d. þegar honum var komið á. Þá nam skattfrjáls starfskostnaðargreiðsla um 40.000 kr., á sama tíma og þingfararkaupið var 195.000 kr. Þetta var gríðarstór búbót fyrir þingmenn á þeim tíma, 1995. Í dag er upphæðin 40.000 kr. þannig að að raunvirði er þessu ekki saman að líkja.

En ég nefni þetta sérstaklega — hv. þingmaður talar um næstu umferð og hvort þetta sé tímabært eða ekki — vegna þess að þetta er breyting á kerfi sem er eingöngu hér innan húss, þetta hefur engin áhrif á samfélagið í heild sinni, þetta er eitthvað sem við getum alveg tekið í þessari umferð. Þá minni ég forseta á umsögn sem hann skilaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir tveimur árum þegar frumvarp mitt um starfskostnaðargreiðslur var til umfjöllunar, þar sem sagði að gera mætti ráð fyrir því að þau ákvæði kæmu til skoðunar við endurskoðun sem væri verið að undirbúa á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Ef ég hefði staðið hér árið 2019 með þá umsögn forseta í höndunum myndi ég halda að næsta umferð væri núna, hér og nú, 2021. Ættum við ekki bara að einhenda okkur í þetta og opna þessa gátt alveg upp? Við þurfum ekki að spyrja einn eða neinn, engan annan en okkur 63 sem sitjum í þessum sal.